Undirbúningur álvers í Helguvík í eðlilegum farvegi
Norðurál hefur síðastliðin fjögur ár unnið að undirbúningi álvers í Helguvík í mjög góðu samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, orkufyrirtæki og opinberar stofnanir. Norðurál hefur í hvívetna farið að lögum og reglum sem um slíkar framkvæmdir gilda og gengur undirbúningur samkvæmt áætlun.
Samningar hafa verið gerðir um svæði fyrir starfsemina, hafnaraðstöðu, orku og orkuflutning. Mati á umhverfisáhrifum er lokið og búið er að breyta aðal- og deiliskipulagi. Byggingarleyfi fyrir álverið var samþykkt í bæjarstjórnum sveitarfélagsins Garðs og Reykjanesbæjar 12. mars.
Hinn 10. október sl. kærði Landvernd til umhverfisráðherra ákvörðun sem Landvernd telur að sé fólgin í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum fyrir álver í Helguvík. Hinn 22. nóvember sendi Umhverfisráðuneytið kæruna til Norðuráls og fleiri til umsagnar. Norðurál hefur skilað umsögnum sínum innan þeirra tímamarka sem ákveðin hafa verið með Umhverfisráðuneytinu.
Meginefni kærunnar felst í því að Skipulagsstofnun nýtti ekki heimildarákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum til þess að meta í einu lagi umhverfisáhrif af öllum framkvæmdum sem kunna að tengjast byggingu álversins. Norðurál telur að vísa hefði átt kæru þessari frá þegar í stað þar sem álitaefni þetta sætir ekki kæru og að kæran sé alltof seint fram komin. Á árinu 2006 fór fram ítarlegt samráðsferli vegna þessa atriðis að frumkvæði Skipulagsstofnunar með þáttöku Umhverfisstofnunar, orkuframleiðenda, sveitarfélaga og fleiri aðila. Niðurstaða þessa ferlis var að meta ekki allar framkvæmdir saman.
Í bréfi Umhverfisráðuneytisins til Norðuráls frá 22. nóvember, sem fylgdi með kæru Landverndar, segir m.a.: “Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, sbr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sætir ekki kæru til ráðherra skv. 1. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eins og áður sagði.”
Þar sem byggingarleyfi byggir á áliti Skipulagsstofnunar verður ekki séð að umrædd kæra hafi nein áhrif á útgáfu byggingarleyfis og hefur Norðurál því haldið áfram vinnu við undirbúning verkefnisins samkvæmt áætlun.
Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrituðu orkusamning fyrir álver í Helguvík 23. apríl 2007. Þá undirrituðu Orkuveita Reykjavíkur og Norðurál orkusamning fyrir álver í Helguvík 7. júní 2007. Frá þeim tíma hafa Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur unnið að því að uppfylla skuldbindingar sínar um sölu á orku og er sú vinna á áætlun.
Landsnet hf og Norðurál undirrituðu samning um flutning raforku til álversins í Helguvík 3. október 2007. Landsnet hefur síðustu mánuði unnið með sveitarfélögum á Suðurnesjum og víðar að útfærslu flutningsleiða og samkvæmt upplýsingum Norðuráls er sú vinna á lokastigum og ljóst að ásættanleg niðurstaða næst. Öll sveitarfélög á Suðurnesjum hafa lýst yfir stuðningi við byggingu álvers í Helguvík.
Framangreind orkufyrirtæki eru öll að vinna að undirbúningi sinna framkvæmda af fullum krafti og hafa upplýst Norðurál um stöðu þess undirbúnings. Norðurál hefur unnið með þessum fyrirtækjum í mörgum verkefnum og hefur afar góða reynslu af því samstarfi.
Þetta kemur fram í frétt frá Norðuráli.