Undirbúa umsókn fyrir Unglingalandsmót UMFÍ 2012
Í Vogum er mikill áhugi fyrir því að halda Unglingalandsmót UMFÍ árið 2012 og var nýlega skipuð sameiginleg nefnd sveitarfélagsins og UMFÞ til að undirbúa umsóknina.
Umgmennafélagið Þróttur í Vogum hefur tvívegis sett inn umsókn til UMFÍ til þess að minna á áhuga sinn. Félagið fagnar einmitt 80 ára starfsafmæli sínu þetta sama ár.
Formlegt umsóknarferli fyrir Unglingalandsmót 2012 er nú að hefjast og skal skila inn umsókn eftir áramót. Á Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið verður í Grundarfirði í sumar verður tilkynnt hvaða félag fær að halda mótið 2012.
Fulltrúar sveitarfélagsins og UMFÞ funduðu nýlega með fulltrúum UMFÍ en þar kom m.a. fram að vanda þyrfti til umsóknarinnar. Þó félagið væri mótshaldari og umsóknaraðili, þyrfti að liggja fyrir skýr stuðningur þess sveitarfélags sem félagið starfar í. Í því ljósi var ákveðið að skipa sameiginlega nefnd fulltrúa UMFÞ og sveitarfélagsins.
Verkefni nefndarinnar verði að undirbúa umsóknina og afla nauðsynlegra gagna þar að lútandi. Henni verði m.a. ætlað að leggja fram tillögu að íþróttagreinum, meta þörf fyrir mannvirki, áætla kostnað við uppbyggingu nauðsynlegra mannvirkja, ásamt öðru sem viðkemur umsókninni. Nefnin á að skila af sér tillögu að umsókn þann 15. desember næstkomandi, samkvæmt því sem fram kom á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Minnihlutinn í H-listanum ítrekaði í bókun að fulltrúar hans gætu ekki tekið afstöðu til umsóknar UMFÞ um unglingalandsmót fyrr en kostnaðaráætlun lægi fyrir.
„Afstaða bæjarstjórnar og aðkoma bæjarfélagsins á að okkar mati að mótast í vinnu við fjárhagsáætlun og finnst okkur ábyrgðarleysi að gefa UMFÞ vonir um stuðning sveitarfélagsins við verkefnið áður en kostnaður hefur verið metinn. Við erum tilbúin að skipa fulltrúa í nefnd til að skoða verkefnið en við viljum ítreka að það felur ekki sjálfkrafa í sér stuðning við væntanlega umsókn,“ segir í bókun H-listans.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Vogar.