Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 25. júlí 2001 kl. 10:25

Undirbúa stofnun nýs olíufélags

Unnið er að undirbúningi stofnunar nýs íslensks olíufélags, Íslandsolía, en það mun væntanlega hafa aðstöðu í Helguvík í Reykjanesbæ, hjá Tankabúi Helguvíkur sem þar hyggst byggja olíutanka og leigja út.

Starfsemi hefst um áramót
Ætlun Íslandsolíu er að leggja áherslu á sölu á gasolíu. Jón Gunnar Aðils, forsvarsmaður hópsins sem unnið hefur að undirbúningi nýja olíufélagsins í hálft annað ár, segir að innlendir aðilar standi að málinu en með hugsanlegri þátttöku erlendra. Jón Gunnar segist ekki geta upplýst nánar um málið vegna þess að eftir sé að ganga frá samningum. Vonast hann til að mál skýrist á næstu vikum og að hægt verði að hefja starfsemi um áramót.

Mikill áhugi hjá fjárfestum
Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykanesbæjar, sagði að stofnun Íslandsolíu og bygging tankabús í Helguvík væru í raun tvö aðskilin mál sem tengdust þó saman. Undirbúningur að byggingu geymslutanka fyrir eldsneyti í Helguvík hefur staðið yfir í tæp tvö ár en MOA og Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri Hafnarsamlag Suðurnesja hafa unnið að undirbúningi verkefnisins. „Við vitum þann 8. ágúst nk. hvort nægjanlegt fjármagn fæst fyrir byggingu tankanna. Lokað útboð hefst á næstu dögum en ég hef orðið var við mikinn áhuga á hjá stórnotendum eldsneytis og fjárfestum enda býður staðsetningin upp á mörg tækifæri“, segir Ólafur.

Skapar ný tækifæri
Ólafur undirstrikar að tankabúið í Helguvík yrði ekki í samkeppni við olíufélög um sölu á olíu, heldur yrði eingöngu um útleigu á tankaplássi að ræða, þ.e. olíufélögin greiða ákveðna upphæð fyrir að fá að nota ákveðinn rúmmetrafjölda hjá tankabúinu.
„Ef af verður þá mun starfsemi tankabúsins hafa verulega jákvæð áhrif á bæjarfélagið. Vonandi verður þetta til þess að olíuflutningar minnki stórlega á Reykjanesbrautinni. Þó að akstur olíubíla sé til fyrirmyndar þá væri albest ef eldsneyti sem notað yrði á Keflavíkurflugvelli, yrði geymt í Helguvík. Við gætum hugsanlega einnig afgreitt skipaflotann úr Helguvík, eða þá sem afgreiða skipaflotann úti á rúmsjó. Þá kæmu fleiri fyrirtæki til með að sjá hag sinn í að koma sér fyrir í Helguvík. Með þessu skapaðist líka tækifæri fyrir Flugleiði, sem er sennilega stærsti einstaki eldsneytiskaupandinn á Íslandi. Þeir gætu boðið eldsneytið út og lækkað olíukostnaðinn. Það hefði að sjálfsögðu heilmikil áhrif á rekstur félagsins í heild sinni. Það skýtur ekki loku fyrir að erlend olíufélög gætu leigt pláss hjá tankabúinu í Helguvík og boðið í eldsneyti Flugleiða, eða annarra aðila sem fljúga til og frá Íslandi.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024