Undirbúa Samtök stofnfjáreigenda í SPKEF
Undirbúningur er hafinn að stofnun Samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík SPKEF og hefur verið ákveðið að halda fund í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 21. október nk. kl. 18:00.
Samtök stofnfjáreigenda verða grasrótarsamtök og tilgangurinn með þeim er að vinna að helstu hagsmunamálum stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík SPKEF.
„Stofnfjáreigendur eru harmi slegnir yfir falli bankans, í fyrsta lagi vegna mikils fjárhagslegs tjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Í öðru lagi að bankinn hafi hugsanlega misst fjárhagslega getu sína til að styðja áfram dyggilega við atvinnu-, íþrótta-, menningar- og menntamál hér á Suðunesjum, það sem bankinn hafði áður gert svo vel.
Margir Suðurnesjamenn hafa allt frá barnsaldri lagt inn sína fyrstu krónu í bankann og sýnt honum mikið traust. Það er því mikið áfall að bankanum hafi ekki vera stjórnað betur. Ýmislegt hefur verið að koma í ljós varðandi rekstur bankans sem krefst frekari athugunar. Fyrrverandi stjórn bankans og sparisjóðsstjóra verður boðið að mæta á fundinn til að kynna stofnfjáreigendum hvað það var sem leiddi til falls bankans. Grundvöllur kröfulýsinga í SPKEF verður kynntur og ræddur á fundinum en kröfum í búið þarf að skila inn fyrir 5. des næstkomandi. Möguleg skaðabótamál á hendur stjórnendum Sparisjóðsins í Keflavík verða kynnt og rædd.
Sveinn Margeirsson frá Félagi stofnfjáreigenda í BYR verður með erindi og á mælendaskrá verður fólk úr slitastjórn gamla bankans. Áhugi fólks á að stofna svona félag verður tekin til umræðu og ef það er vilji fólks þá verður kosið í stjórn þess. Þeir sem hafa áhuga að vinna með eða gefa kost á sér í stjórn eru vinsamlega beðnir um að láta vita af sér í byrjun fundar. Með von um góða mætingu á fundinn,“ segir í tilkynningu frá undirbúningsnefnd.