Undirbúa móttöku allt að 1500 Sunnlendinga
– gætu þurft að rýma Suðurland verði gos í Bárðarbungu
Rauði krossinn á Suðurnesjum gerir ráð fyrir að taka á móti allt að 1500 Sunnlendingum í fjöldahjálparstöðvar á Suðurnesjum komi til eldgoss í Bárðarbungu. Rauði krossinn undirbýr nú mögulega rýmingu á Suðurlandi þar sem tekið yrði á móti 13.500 íbúum af Suðurlandi. Notast verður við skóla á Suðurnesjum og húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Þrjár fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar á Suðurnesjum í gær í landsæfingu Rauða kross Íslands. Sjálfboðaliðar RKÍ stóðu þar vaktina rétt eins og um alvöru neyðarástand væri að. Á síðustu vikum höfum við sem búum á þessari eyju í Norður-Atlantshafi verið rækilega minnt á kraft óútreiknanlegra náttúruafla. Hættan er ætíð til staðar fyrir alla sem hér eru staddir, þar sem neyð gæti orðið raunin á örskammri stundu. Skapist alvöru neyð er mikilvægt fyrir alla landsmenn, og gesti okkar einnig, að vita hvert á að sækja hjálp og hvar er hægt að komast í öruggt skjól.
Nokkuð stöðugur straumur fólks var á fjöldahjálparstöðvarnar í gær þar sem boðið var upp á matarmikla kjötsúpu. Sögðu Rauðakrossfélagar að æfingin í gær væri góður undirbúningur fyrir hugsanlega móttöku Sunnlendinga á flótta undan gosi í Bárðarbungu.
Gestum fjöldahjálparstöðvarinnar var boðið upp á matarmikla kjötsúpu.