Undir áhrifum þrenns konar fíkniefna á 120 km. hraða
Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvo ökumenn vegna gruns um fíkniefnaakstur um helgina. Annar var á ferð í Grindavík og vakti athygli lögreglumanna af því að hann var ekki með bílbelti spennt. Þá var hann ekki með ökuskírteini meðferðis. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu hans á kannabis og amfetamíni.
Hinn ökumaðurinn ók á 120 km. hraða á Reykjanesbraut. Hann var án ökuréttinda og reyndist hafa neytt kannabisefna, amfetamíns og metamfetamíns. Í bifreið hans fannst meint kannabis, sem hann viðurkenndi að eiga.
Loks voru fimm ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, ýmist á Grindavíkurvegi eða Reykjanesbraut.
Að öðru leyti var helgin róleg og góð hjá lögreglunni á Suðurnesjum.