Undir áhrifum áfengis og svefnlyfja þegar slysið átti sér stað
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út skýrslu um banaslys sem varð á Grindavíkurvegi við Gíghæð þann 5. mars árið 2017. Toyota bifreið ekið suður Grindavíkurveg. Ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Ökumaður, sem var ekki spenntur í öryggisbelti, kastaðist út úr bifreiðinni og lést af völdum fjöláverka. Ökumaður var undir áhrifum áfengis og svefnlyfja þegar slysið átti sér stað, segir í samantekt skýrslunnar um banaslysið, sem mbl.is greinir frá.
Rétt fyrir kl 2 að nóttu þann 5. mars 2017 urðu vegfarendur á leið um Grindavíkurveg varir við óvenjuleg hjólför eftir bifreið á veginum. Við nánari skoðun sáu þeir Toyota bifreið utan við veginn sem hafði oltið. Á þessum tíma var austanátt með um 7 m/s vindhraða, hiti um 2°C og engin úrkoma. Ökumaður Toyota bifreiðarinnar var einn á ferð á leið til Grindavíkur þegar hann missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt. Engin vitni voru að slysinu.
Ökumaður, sem var ekki með öryggisbelti spennt, kastaðist út úr bifreiðinni og lést af völdum fjöláverka.
Niðurstöður áfengis- og lyfjarannsókna sýndu að ökumaður var undir verulegum áhrifum áfengis þegar slysið varð. Ökumaðurinn var einnig undir áhrifum svefnlyfs. Styrkur þess í blóði var við eitrunarmörk.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir: Undanfarin ár hefur ölvunarakstur verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind neytenda og skynjun umhverfis. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun eykst, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast. Ökumaðurinn í þessu slysi var einnig undir áhrifum svefnlyfs. Áfengi og svefnlyfið geta aukið slævandi og miðtaugakerfisbælandi áhrif hvors annars.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um ölvunarakstur. Ökumenn sem setjast ölvaðir undir stýri skapa öðrum og sjálfum sér mikla hættu. Akstur eftir áfengisdrykkju eykur líkur á alvarlegum slysum og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis né undir áhrifum lyfja sem hafa áhrif á akstur.