Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Umskipunarhöfn og birgðastöð á Suðurnesjum?
Miðvikudagur 22. október 2003 kl. 14:26

Umskipunarhöfn og birgðastöð á Suðurnesjum?

Ef ráðist yrði í byggingu umskipunarhafnar á Íslandi vegna opnunar norð-austur siglingaleiðarinnar fyrir Norður Rússland kæmu Suðurnes sterklega til greina við hýsingu slíkrar hafnaraðstöðu. Innan Utanríkisráðuneytisins hefur starfshópur hafist handa við að fjalla um opnun þessarar siglingaleiðar og mikilvægi hennar fyrir Ísland. Að sögn Ragnars Baldurssonar sendiráðunautar í Auðlinda- og umhverfisstofu Utanríkisráðuneytisins mun starfshópurinn skila greinargerð um málið næsta haust, en Ragnar á sæti í starfshópnum. Starfshópurinn mun ekki taka ákvörðun um staðarval ef til byggingu slíkrar hafnar kæmi. Flestir vísindamenn sem fjallað hafa um áhrif hlýnandi veðurfars á norðurslóðum ber saman um að draga muni verulega úr ís á siglingaleiðunum fyrir Norðurskautið á næstkomandi áratugum. Samkvæmt sumum spám, er talið að siglingaleiðin fyrir Norður-Rússland kunni að verða opin óstyrktum skipum í a.m.k. tvo mánuði á sumrin innan fimm ára og jafnvel í fjóra til sex mánuði árið 2015.

Ísland hefði mikinn efnahagslegan ávinning af opnun norð-austur siglingaleiðarinnar og opnar hún möguleika á birgðastöð og umskipunarhöfn á Íslandi fyrir flutninga milli Austur-Asíu og ríkja við Norður-Atlantshaf og segir Ragnar að ef flutningaleiðin muni opnast verði flutningar þessa leið umtalsverðir.

Guðbjörg Jóhannsdóttir atvinnuráðgjafi Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum sagði í samtali við Víkurfréttir að gögn um Helguvík og Keilisnes hafi verið send inn til starfshópsins til að sýna áhuga á verkefninu. „Við höfum sent upplýsingar er byggjast á fyrirliggjandi rannsóknum á áður nefndum svæðum til starfshópsins, í framhaldi af því munum við fylgjast með þróun mála.  Þetta er spennandi verkefni og ljóst að ef flutningaleiðin opnast eru möguleikar Íslands miklir vegna staðsetningar. Nálægðin við alþjóðaflugvöll og góðar samgöngur gerir Suðurnesin að fýsilegum kosti í þessu sambandi.“

 

VF-ljósmynd: Flutningaskip í Keflavíkurhöfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024