Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umræða á Alþingi um hámarkshraða á Reykjanesbraut
Föstudagur 4. mars 2005 kl. 13:41

Umræða á Alþingi um hámarkshraða á Reykjanesbraut

Talsverðar umræður urðu á Alþingi á dögunum vegna fyrirspurnar Jóns Gunnarssonar um hámarkshraða á Reykjanesbraut. Í fyrirspurn Jóns segir: Nú hillir undir að frekari framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar verði að veruleika eftir yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra á fjölmennum fundi í Stapa fyrir nokkrum dögum um að þessi syðri hluti verði boðinn út í einu lagi fljótlega. Nú er komin ákveðin reynsla á þann hluta brautarinnar sem þegar er búið að tvöfalda. Umferðarmenningin hefur breyst mikið til batnaðar frá því sem áður var þar sem mun minna er um glæfralega framúrakstur og lítil hætta á að umferð lendi á öðrum sem koma úr gagnstæðri átt, eins og stundum vildi verða með hrikalegum afleiðingum á einfaldri Reykjanesbraut.

Við sem keyrum Reykjanesbrautina á hverjum degi verðum áþreifanlega vör við þá breytingu sem þegar er orðin á umferðinni um brautina. Hún er afslappaðri á einfalda kaflanum frá Hafnarfirði að tvöföldun þar sem allir vita að þeir komast hindrunarlaust áfram þegar að tvöföldun kemur. Tvöföldunin virkar vel og flestir bílstjórar keyra hana eins og ráð er fyrir gert, hægari umferð heldur sig að mestu hægra megin en sú hraðari notar vinstri akreinina til framúraksturs. Í raun má segja að allir geti keyrt á sínum hraða. Þeir sem hægar fara gera það nú öruggara en áður og án þessa stressálags sem t.d. hraðari umferð setti á þá meðan ekki var um tvöföldun Reykjanesbrautar að ræða.

Hraðinn hefur þó aukist á brautinni frá því sem áður var. Við verðum að gæta að hraðanum og mér finnst þessi hraði núna orðinn kannski heldur mikill miðað við þann hámarkshraða sem á brautinni gildir. Ætli við getum ekki sagt að ferðahraðinn á brautinni í dag hjá þeim sem keyra vinstra megin sé í kringum 110 km á klukkustund.

Við þurfum líka að svara þeirri spurningu hvort rétt sé að á þessum vegi gildi sami hámarkshraði og á tiltölulega mjóum vegum vítt og breitt um landið þar sem aðstæður eru allar aðrar á þessari nýju braut okkar milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Jafnframt má velta fyrir sér að hámarkshraði geti farið eftir aðstæðum og að hitanemar í veginum sem þegar eru fyrir hendi geti stjórnað æskilegum hámarkshraða á brautinni. Einnig er til umhugsunar hvort hraðinn á að vera sá sami á sumartíma og vetrartíma.

Ég tel mikilvægt að fá fram afstöðu hæstv. samgönguráðherra til þessa máls og eðlilegt að hér sé eftir henni spurt. Til að halda afstöðu minni til haga tel ég fullt svigrúm til þess að færa hámarkshraða á brautinni nær þeim hraða sem nú tíðkast á tvöfaldri braut en þá um leið verðum við að tryggja nægjanlegt eftirlit með því að hámörkin séu virt.

Til að fá fram afstöðu hæstv. samgönguráðherra lagði ég fram ásamt hv. þm. Merði Árnasyni þrjár spurningar sem eru eftirfarandi:

 Telur ráðherra eðlilegt að hækka hámarkshraða ökutækja á tvöfaldri Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar?

Var gert ráð fyrir hækkun hámarkshraða við hönnun brautarinnar?

Kemur til greina að mati ráðherra að hafa mismunandi hámarkshraða sumar og vetur?


Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, svaraði:

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr:

Telur ráðherra eðlilegt að hækka hámarkshraða ökutækja á tvöfaldri Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar?

Markmiðið með tvöföldun brautarinnar er fyrst og fremst að auka öryggi á þessari fjölförnu leið. Þegar tvöföldun brautarinnar er lokið tel ég eðlilegt að Vegagerðin og Umferðarstofa fylgist með tíðni slysa og alvarlegra slysa og beri saman við tölur fyrri ára. Tíminn mun leiða í ljós hvort alvarlegum slysum á brautinni fækkar eins og allar ástæður ættu að gefa tilefni til. Með hliðsjón af þeirri reynslu er mögulegt að draga ályktanir varðandi öruggan ökuhraða á tvöfaldri Reykjanesbraut en ég tel afar varhugavert að gera einhverjar breytingar í þá veru að hækka hámarkshraðann núna. Ég er ekki tilbúinn til að gefa yfirlýsingar á þessu stigi um að það sé eðlilegt, þrátt fyrir tvöföldun allrar brautarinnar, að þá séu færi til þess að hækka hámarkshraðann. Ég tel að það verði að skoða afar vandlega og er ekki tilbúinn til að gefa undir fótinn með það á þessu stigi.

Síðan er spurt: Var gert ráð fyrir hækkun hámarkshraða við hönnum brautarinnar?

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er hönnunarhraði á tvöfaldri Reykjanesbraut þegar hún er fullbúin 110 km á klukkustund. Brautin er hönnuð án vegriða. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 er mesti leyfilegi hámarkshraði hins vegar 100 km á klukkustund. Ég tel engu að síður eðlilegt að þessi hönnunarviðmiðun sé viðhöfð við gerð brautarinnar.

Síðan er spurt: Kemur til greina að mati ráðherra að hafa mismunandi hámarkshraða sumar og vetur?

Ég tel það slæman kost að hafa mismunandi hraðamörk þarna en það þarf að velja hæfilegan hámarkshraða á Reykjanesbrautinni tvöfaldaðri miðað við þær aðstæður sem þá verða. Það er alveg ljóst að mismunandi hraðamörk á slíkri braut eftir árstíðum gætu valdið ruglingi og orðið ástæða til þess að fólk færi yfir leyfilegan hámarkshraða.

Á það er að líta að einungis örfáar mínútur sparast á þessari leið með því að aka 10 km hraðar en leyfilegur hámarkshraði er núna. Ég tel að þjóðin hafi ágætlega efni á því og hafi nægan tíma til þess að aka þessa leið, sem er nú ekki löng, á þeim hæfilega hámarkshraða sem núna er leyfður.

Ég tek undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, ökuhraðinn virðist hafa aukist. Það er miður. Við vitum að alvarlegustu slysin verða þegar of hratt er ekið. Þrátt fyrir að þetta sé góður vegur miðað við það sem almennt gerist hér á Íslandi er það engu að síður svo að slysin verða jafnvel við bestu aðstæður vegna mikils ökuhraða. Ég tel að það þurfi að gæta sín í þeim efnum.

Aðeins vil ég samt nefna það út af þessari fyrirspurn um mismunandi hámarkshraða að við teljum að víða á þjóðvegum landsins séu aðstæður þannig að það sé eðlilegt að taka upp breytilegan hámarkshraða til þess að vara ökumenn við slæmum köflum. Sums staðar er bundið slitlag og hámarkshraði leyfður en síðan koma erfiðir kaflar með beygjum og brekkum og þá er ekki úr vegi að hafa þar lægri hámarkshraða og vara þannig við verstu köflum þjóðvegakerfisins.


Nokkrir þingmenn tóku þátt í umræðunni. Á eftir fer þeirra innlegg í umræðuna:


Drífa Hjartardóttir


Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni fyrir að koma með góða lausn á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á fundi á Suðurnesjum um daginn. Hann tilkynnti þar að ákveðið hefði verið að bjóða út tvöföldun Reykjanesbrautar í einu lagi. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla. Þetta er mikilvæg samgöngubót, ekki aðeins fyrir Suðurnesjamenn heldur alla þá sem um þennan veg aka.

Ég vil taka undir með ráðherra með að það á alltaf að aka eftir aðstæðum. Hraðinn er oft alltof mikill. Eins og kom fram hjá ráðherra verða flest slys vegna þess að ekki er ekið eftir aðstæðum og oft alltof hratt miðað við bestu aðstæður.

Ég vil líka taka undir það að gefa þyrfti betri viðvaranir áður en vegarkaflar versna, sérstaklega á þjóðvegum landsins.



Mörður Árnason

 Forseti. Hæstv. samgönguráðherra er varfærinn eins og hann á að vera. Þó held ég að sé ástæða sé til að fagna því að til stendur að draga ályktanir af rannsóknum sem fram fara þegar Reykjanesbrautin er orðin eins og hún á að vera.

Ég verð að segja sem nýr þátttakandi í hraðanum á þjóðvegum þeim sem hér um ræðir, þ.e. meira en göngu- eða hjólreiðahraða, hef ég komist að því að skilti við þjóðvegi um hraðatakmarkanir séu að mestu eins konar myndlistarverk. Hraðinn er í engu samræmi við þann hraða sem skiltin segja til um. Menn fara í raun hver á sínum eigin hraða. Ég held að stefnumarkið eigi að vera að við ákveðum ákveðinn hraða á hverjum vegi og farið sé eftir þeim hraða. Til þess þarf ýmislegt að koma til. Þar á meðal, eins og hæstv. ráðherra sagði, þarf að hægja á þegar það þarf en líka að gefa möguleika á auknum hraða þegar það á við. Ég veit ekki hvar það á við ef það á ekki við á hinni tvöföldu Reykjanesbraut framtíðarinnar.

Magnús Þór Hafsteinsson

Virðulegi forseti. Tvöföldun Reykjanesbrautar er að sjálfsögðu mikið framfaraskref og ber að fagna því að ráðherra ætli að bjóða verkið út nú í vor. Við förum þannig langleiðina með að klára þetta þótt ekki sé enn þá alveg vitað hvernig á að finna peningana, hvenær á að byrja eða hvenær á að klára. Nóg um það.

Mér datt í hug, í framhaldi af þeirri umræðu sem var hér áðan, hvort ekki mætti leysa málið eins og víða er gert erlendis. Þar eru ljósaskilti yfir vegum sem sýna ökumönnum á hverjum tíma hversu hratt má aka. Þannig ljósaskilti væri t.d. hægt að setja upp yfir Reykjanesbraut. Þannig væri hægt að stjórna hámarkshraðanum á hverjum tíma miðað við færð, þ.e. hálku, bleytu og annað þess háttar.

Hins vegar væri gaman að heyra hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni hversu mikinn tíma hann telur að sparist ef hraðinn á brautinni yrði aukinn? Hann þekkir þann veg mjög vel.



Jón Gunnarsson hafði þetta til málanna að leggja:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem þátt hafa tekið í umræðunni.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að markmiðið með því að tvöfalda Reykjanesbrautina var aðallega auka þar öryggismál, að tryggja betur öryggi vegfarenda sem um brautina færu. Verstu slysin sem á brautinni urðu þegar bílar voru að lenda hvor framan á öðrum og með tvöföldun þá er komið að mestu í veg fyrir þá hættu.

Frá því tvöföldun laun á þeim kafla sem nú hefur verið tekinn í notkun, þá eftir því sem ég best veit hefur ekki orðið alvarlegt slys og ber að sjálfsögðu að fagna því. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að hönnunarhraði brautarinnar er 110 km hraði. Ég held að margir bílstjórar séu þegar farnir að aka á þeim hraða á brautinni þrátt fyrir að hámarkshraði sé samkvæmt þeim skiltum sem uppi eru 90 km.

Það er kannski að einhverju leyti eðlilegt að svo sé gert því að vegurinn er virkilega góður og menn fyllast ákveðinni öryggistilfinningu þegar þeir koma inn á þessa tvöföldu kafla og allt önnur akstursskilyrði en tíðkast á Íslandi á þjóðvegum landsins.

Hitt er annað mál að maður veltir fyrir sér 90 km hámarkshraðanum á ýmsum vegum á landinu. Það tók t.d. sveitarstjórnina í Vatnsleysustrandarhreppi á annað ár að fá Vegagerð ríkisins til að lækka hámarkshraða á mjóum Vatnsleysustrandarvegi, sem rétt er ein bílbreidd af slitlagi, úr 90 km hraða í 70 km hraða. Þegar maður veltir því fyrir sér að það eigi að vera sami hámarkshraði á þeim vegi, með bundið slitlag sem nemur nánast einni bílbreidd, og tvöfaldri Reykjanesbraut þá er það mjög skrýtið.

Ég er sammála ráðherra. Það á að fara hægt í þessu máli. Menn eiga ekki að flýta sér og flas er ekki til fagnaðar. En ef brautin þolir 110 km hraða þá eigum við að fara upp í þann hraða.


Og að lokum kom samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, og sagði þetta:

Herra forseti. Ég þakka nú fyrir ágætar umræður sem spunnist hafa vegna þessarar fyrirspurnar. Ég tel mikilvægt að þingmenn taki þátt í umræðum um umferðaröryggismál. Það er alvarlegt hvernig slysum hefur fjölgað og hve mörg alvarleg slys verða á þjóðvegum landsins. Við eigum að leggja okkur fram um að koma í veg fyrir þau.

Ég hef gert grein fyrir áformum okkar um sérstakar umferðaröryggisaðgerðir, annars vegar með því að bæta vegakerfið en fyrst og fremst þurfum við að beina sjónum okkar að ökumönnum, fá ökumenn til að gæta sín í umferðinni. Það liggur fyrir að alvarlegustu slysin verða vegna þess að of hratt er ekið, vegna þess að bílbeltin eru ekki notuð eða vegna þess að ökumenn eru undir áhrifum áfengis. Þar er af mörgu að taka og við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram um að stuðla að auknu öryggi í umferðinni.

Ég held að það sé hárrétt sem hér kom fram, að ekki þola allir kaflar á þjóðvegakerfinu hámarkshraða þrátt fyrir bundið slitlag. Bundið slitlag leysir ekki allan vanda og að því þarf að huga. Hluti af því umferðaröryggisátaki og þeim aðgerðum sem samgönguráðuneytið stendur fyrir um þessar mundir er að reyna að brýna fyrir ökumönnum að taka tillit til aðstæðna, m.a. með breytilegum hámarkshraða eins og ég nefndi fyrr.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024