Umkomulausir 11 ára tvíburar í óvænt ævintýri með lögreglunni í Reykjanesbæ
— Pabbinn endaði á sjúkrahúsi í Reykjavík og mamman stödd í Las Vegas
Hvað gera 11 ára tvíburasystur frá Bandaríkjunum þegar þær verða óvænt strandaglópar og umkomulausar í Reykjanesbæ? Pabbinn á sjúkrahúsi í Reykjavík og mamman í Las Vegas í Bandaríkjunum? Jú, þær heillast bara af lögreglumanninum sem kom þeim til hjálpar og vilja fá að gista heima hjá honum?
Sjúkrabifreið var kölluð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dögunum til að sækja þangað bandarískan ferðamann sem grunur lék á að hafi fengið heilablæðingu. Maðurinn var í flugstöðinni ásamt dætrum sínum, 11 ára tvíburum. Feðginin fóru með sjúkrabílnum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Þaðan var faðirinn fluttur áfram á Landspítalann í Reykjavík en dæturnar urðu eftir á HSS.
„Það barst svo símtal frá sjúkrahúsinu á lögreglustöðina með spurningu um hvað ætti að gera við stelpurnar,“ sagði lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann biðst undan því að vera nafngreindur.
Samkvæmt lýsingu á atburðarásinni þá munu systurnar hafa grátið mikið, enda óttast um föður sinni sem hafði verið fluttur áfram á sjúkrahús í Reykjavík og þær allt í einu orðnar umkomulausar í Reykjanesbæ. Þær voru á ferðalagi með pabba sínum og komu hingað frá Írlandi og voru á leið til San Francisco í Bandaríkjunum.
Lögreglumaður sótti systurnar á HSS og fór með þær á lögreglustöðina í Keflavík þar sem bæði var haft samband við bandaríska sendiráðið og einnig barnaverndaryfirvöld. Þá var einnig reynt að ná í móðurina sem býr í Las Vegas.
„Þetta ferli hafði örugglega tekið um eina klukkustund og á þeim tíma tókst mér að ná vel til systranna og hafði tekist að hugga þær. Ég sagði þeim frá hinu og þessu og var einnig að reyna að útskýra fyrir þeim næstu skref. Ég sagði þeim að við vissum ekki hvað ætti að gera við þær. Þá spurði önnur þeirra; getum við ekki bara komið með þér heim? - Hvað segir maður þá við 11 ára gamalt barn sem spyr svona?“ segir lögreglumaðurinn sem tók á móti systrunum á lögreglustöðinni í Keflavík.
Hann ræddi málið við bandaríska sendiráðið, barnavernd og móður stúlknanna. „Mamman sagði bara þvert nei, það komi ekki til greina að dætur hennar fari heim með einhverjum karli á Íslandi. Ég sendi henni vinabeiðni á Facebook og sendiráðið ræddi við hana líka og þá var þetta ekkert mál. Það var því ekki um neitt annað að ræða en að ég hringdi í konuna mína og sagði að ég væri að koma heim með tvær ellefu ára stelpur úr vinnunni, eins og ekkert væri eðlilegra,“ segir lögreglumaðurinn.
Hann fór með systurnar heim þar sem pantaðar voru pizzur og systurnar léku sér við börn lögreglumannsins. Hann var í stöðugu sambandi við bandaríska sendiráðið og móðurina í Bandaríkjunum. Þá hringdu systurnar í mömmu sína í gegnum Facetime. Daginn eftir fóru systurnar með lögreglunni í bakaríið, Víkingaheima og í búð þar sem keyptar voru pylsur á grillið og slegið upp grillveislu. Síðar um daginn var systrunum svo skutlað upp í flugstöð og í flug með WOW air til Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem mamma þeirra sótti þær eftir ævintýraför til Reykjanesbæjar. Pabbi stúlknanna var svo útskrifaður af sjúkrahúsi og fór utan daginn eftir, heill heilsu.
Lögreglumaðurinn sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa heyrt frá móður tvíburanna eftir að hún hafi sótt þær á flugvöllinn og þær hafi verið ánægðar með móttökurnar sem þær fengu á Íslandi. Þær hafi verið óttaslegnar þegar pabbi þeirra var fluttur á sjúkrahús en lögreglan hafi breytt ferðalaginu í ævintýri sem muni seint gleymast.