Umhverfisviðurkenningar veittar í Vogum
Hvammsgata 8 og Hvammsdalur 3 í Sveitarfélaginu Vogum hljóta umhverfisviðurkenningar umhverfisnefndar í ár. Virkilega fallegar og skemmilegar lóðir hvor með sínu yfirbragðinu, segir í umsögn nefndarinnar. Verðlaunahafar fengu viðurkenningar, blómvönd og gjafaöskju frá Kaffitár.
„Um leið og umhverfisnefnd óskar íbúum Hvammsdal 3 og Hvammsgötu 8 til hamingju með fallegar eignir vill nefndin einnig hrósa eigendum Lyngdals 10 og Akurgerðis 16 fyrir sitt framlag að snyrtilegum bæ. Í raun eiga margir hrós skilið en í sveitarfélaginu okkar eru garðar, lóðir og húseignir sem árum saman hafa verið til fyrirmyndar. Nokkur eldri hús hafa fengið andlitslyftingu og við nýbyggingar er einnig vert að veita athygli þeim sem ganga fljótt og vel frá lóðum sínum. Góðir hlutir gerast hægt og er vonin að með viðurkenningum og hrósi breytist ásýnd bæjarfélagsins okkar öllum til batnaðar,“ segir á vef Sveitarfélagsins Voga.
Hvammsgata 8
Er virkilega snyrtilega og stílhrein lóð. Þar er skemmtilegt samspil allskonar gróðurs í og við skjólgóða palla og vandaður yfirborðsfrágangur einkennir lóðina. Íbúar í Hvammsgötu 8 eru þau Kristjana Rósa Snæland og Jón Kristinn Kristinsson. Frá því að þau fluttu fyrir fjórum árum hafa þau lagfært, bætt og fegrað eignina til mikils sóma.
Hvammsdalur 3
Hér er um að ræða vel heppnaðan garð þar sem hugmyndaflugið er látið ráða för og til verður skemmtilegur ævintýragarður sem gleður augað. Miklar endurbætur hafa farið fram á lóðinni undanfarin ár og er útkoman virkilega flott í alla staði. Íbúar í Hvammsdal 3 eru þau Regína Ósk Óðinsdóttir og Anton Rafn Gunnarsson.