Umhverfisviðurkenningar Sandgerðisbæjar
Í gærkvöldi voru umhverfisviðurkenningar Sandgerðisbæjar veittar í Fræðasetrinu í Sandgerði. Viðurkenningar voru veittar fyrir verðlaunagarðinn 2004, áhuga og eljusemi í garðrækt og fyrir endurbætur á eldra húsi. Í ár fór valið fram með breyttu sniði þar sem íbúum Sandgerðis gafst færi á því að aðstoða nefndina við valið á sigurgörðunum.
Guðmundur Sigurbergsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir, búsett í Reykjanesbæ, eru stoltir eigendur verðlaunagarðs Sandgerðisbæjar árið 2004. Viðurkenninguna fengu þau fyrir garðinn sinn við sumarbústaðinn Fjörukot úti á Stafnesi. Við afhendinguna í gær var garði þeirra hrósað í hástert og meðal annars líkt við sögusafn.
Fyrir áhuga og eljusemi í garðrækt urðu þau Óskar Gunnarsson og Sólrún Vest hlutskörpust og í flokknum endurbætur á eldra húsi fengu Marta Eiríksdóttir og Friðrik Þór Friðriksson viðurkenningu. Marta og Friðrik gerðu upp gamla Kaupfélagshúsið og reka nú þar Púlsinn Ævintýrahús.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson; á efri myndinni eru til vinstri Óskar og Sólrún, fyrir miðju eru Guðmundur og Gunnhildur og til hægri eru Marta og Friðrik. Á neðri myndinni eru svo Guðmundur og Gunnhildur með viðurkenninguna fyrir verðlaunagarðinn 2004.