Umhverfisverðlaun Grindavíkur afhent
Í gær voru afhent Umhverfisverðlaun Grindavíkurbæjar 2012 við hátíðlega athöfn á bæjarskrifstofunum að viðstöddum bæjarstjórn, gestum frá Svíþjóð og fleiri góðum gestum. Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust fjölmargar ábendingar.
Farið var í vettvangsferðir um ýmsa garða í síðasta mánuði og í framhaldi af því voru fegurstu garðarnir valdir, eins og lesa má um hér. Við athöfnina í gær tilkynnti Róbert Ragnarsson bæjarstjóri um verðlaunin en Marta Sigurðardóttir formaður skipulags- og umhverfisnefndar sá um að afhenda þau.
Grindavíkurbær þakkar margar góðar ábendingar frá bæjarbúum. Jafnframt vill bærinn þakka sérstaklega Guðbjörgu Eyjólfsdóttur fyrir að halda utan um umhverfisverðlaunin undanfarin ár með miklum myndarbrag.
Hér eru svo verðlaunahafarnir:
• Verðlaun fyrir fallegan og gróinn garð: Marargata 7, Vilhelm Þór Þórarinsson og Vigdís Viggósdóttir ásamt Mörtu formanni skipulags- og umhverfisnefndar.
Nefndinni fannst garðurinn afar óvenjulegur og skemmtilegur, þar er mikið af fjölærum plöntum, skemmtileg tjörn og frumleg útfærsla á mörgu.
• Verðlaun fyrir fallegan og gróinn garð: Staðarvör 8, Halla Kristín Sveinsdóttir og Þórarinn Kr. Ólafsson ásamt Mörtu.
Nefndin var sammála um að garðurinn væri einstaklega glæsilegur, vel hirtur og skipulagður og eigendum sínum til mikils sóma.
• Verðlaun fyrir vel heppnaða viðgerð á gömlu húsi: Steinar, Oddgeir Arnar Jónsson. Tekur hér við plattanum frá bæjarstjóranum.
Húsið hefur tekið algjörum stakkaskiptum eftir að það var tekið í gegn af Oddgeiri Arnari og hans mönnum í Sparra og er orðið að bæjarprýði í gamla bænum okkar.
• Verðlaun fyrir snyrtilegasta fyrirtækið: Ice-West ehf. Kristín og Ingvar frá Ice-West ásamt Mörtu formanni skipulags- og umhverfisnefndar.
Húsnæðið hefur verið tekið í gegn bæði að innan og utan undanfarin misseri svo eftir er tekið. Húsið er sem nýtt og ásýnd þess glæsileg í hvívetna.