Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umhverfisvænn og öflugur háhitabor borar á Reykjanesi
Þriðjudagur 27. nóvember 2012 kl. 17:34

Umhverfisvænn og öflugur háhitabor borar á Reykjanesi

Öflugasti háhitabor á Íslandi og jafnframt sá umhverfisvænasti var formlega tekinn í notkun á Reykjanesi í dag. Við sama tækifæri afhjúpaði Ólafur Ragnar Grímsson nafn borsins, en hann hlaut nafnið Þór. Jarðboranir hf. eru eigandi borsins og fyrstu þrjú verkefni hans hér á landi verða á Reykjanesi fyrir HS Orku. Borinn mun bora tvær holur og verður notaður við að laga þá þriðju.

Þór er fyrsti háhitaborinn á Íslandi sem knúinn er af raforku til þessa hafa borar fyrirtækisins eingöngu notað díselolíu. Borinn hefur getu til að bora lengri stefnuboraðar holur en fyrri borar og er með því móti umhverfisvænn með margvíslegum hætti. Við hverja holu sem borinn borar sparast um 50-60 milljónir króna í kaupum á díselolíu og þar með sparast gjaldeyrir.

Þór er fullkomin bor og af nýrri kynslóð. Hann má m.a. nota til að bora láréttar holur út frá einu og sama borstæðinu. Þannig verða láréttu holurnar notaðar sem gufulagnir í stað þess að leggja pípur ofanjarðar. Að koma með slíkan bor til Íslands er vonandi ávísun á meiri sátt milli þeirra sjónarmiða að nýta orkuauðlindir Íslands með skynsamlegum hætti og þeirra sem leggja áherslu á umhverfisvernd, segja forsvarsmenn Jarðborana hf.

Verkefnin á Reykjanesi eru til að tryggja rekstaröryggi Reykjanesvirkjunar og þeirra tveggja 50 MW hverfla sem þar eru nú í notkun og einnig til að útvega næga gufu fyrir þriðja 50 MW hverfilinn sem staðið hefur ónotaður í virkjuninni sl. tvö og hálft ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Forseti Íslands, atvinnumálaráðherra og forsvarsmenn HS Orku og Jarðborana við Þór á Reykjanesi nú síðdegis.

Þór hefur hafið borun á Reykjanesi. Til þess fær hann 6 MW af raforku frá Reykjanesvirkjun og sparar á sama tíma tugi milljóna króna í dísilolíukaupum. Þetta gerir Þór að umhverfisvænasta háhitabor á Íslandi.

Nafn borsins afhjúpað í Reykjanesvirkjun.

Demantsprýdd borkrónan sem kostar litla 200.000 dollara stykkið. Hér eru það aðstoðarforstjóri Jarðborana, forseti Íslands og atvinnumálaráðherrann sem skoða gripinn.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, með Þór, umhverfisvænasta og stærsta háhitabor landsins, í baksýn.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson