Umhverfisstofnun undirbýr úttekt á United Silicon
- Óljóst hvort reksturinn verður stöðvaður á meðan úttekt fer fram
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að stöðva rekstur kísilverksmiðju United Silicon á meðan verkfræðileg úttekt fer fram, að sögn Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun. „Gert er ráð fyrir því að nauðsynlegt sé að einhver rekstur sé í gangi til þess að unnt sé að framkvæma úttektina. Það sem minnst var á í bréfi stofnunarinnar frá 21. febrúar síðastliðinn var að hugsanlega þyrfti að stöðva rekstur tímabundið til að framkvæma úrbætur. Þar sem úttekt hefur ekki farið fram er ekki komið í ljós hvort það er nauðsynlegt,“ segir hún.
Nú er ljóst að kísilverksmiðjan hefur ekki heimild til að senda frá sér lykt og reyk. Til hvaða aðgerða mun Umhverfisstofnun grípa hendi slíkt á næstu dögum?
„Unnið er að undirbúningi úttektar stofnunarinnar. Jafnframt væntir stofnunin upplýsinga jafnóðum um greiningu og úrbætur rekstraraðila. Á meðan á þessu stendur er rekstur takmarkaður við einn ofn eins og fram hefur komið. Einnig er unnið áfram úr ábendingum íbúa,“ segir Sigrún.
Starfsemi hófst í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í október síðastliðnum og hefur reykjar- og lyktarmengun nokkrum sinnum lagt yfir nærliggjandi byggð. Um 300 kvartanir þess efnis hafa borist frá íbúum.