Umhverfismat álvers í Helguvík á lokastigi
Umhverfismat vegna álvers í Helguvík er nú að komast á lokastig og vonast Norðurál til að fá endanlega niðurstöðu Skipulagsstofnunar síðar í þessum mánuði. Stöð 2 greindi frá þessu í hádeginu.
Senn líður að því að stóriðjuframkvæmdunum ljúki á Austurlandi, bæði við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Þar til fyrir hálfu ári benti flest til þess að þá tækju við framkvæmdir vegna stækkunar álvers Alcan í Straumsvík með virkjanaframkvæmdum suðvestanlands, einkum í Þjórsá. En nú virðist sem líkurnar á því að Alcan verði næst í framkvæmdaröðinni hafi snarminnkað og bendir nú flest til þess að næstu stóriðjuframkvæmdir í landinu tengist nýju álveri á Suðurnesjum sem Norðurál hyggst reisa í Helguvík.
Norðurál hefur nú skilað inn endanlegri matsskýrslu, að sögn Ragnars Guðmundssonar forstjóra, og vonast hann til að Skipulagsstofnun kveði upp álit sitt fyrir lok septembermánaðar. Hver sem niðurstaða Skipulagsstofnunar verður má telja líklegt að hún verði kærð til umhverfisráðherra. Norðurálsmenn eru engu að síður staðráðnir í að hefja framkvæmdir í Helguvík sem allra fyrst og ljúka þeim á fimm til sex árum.