Umhverfis- og skipulagsráð frestar Helguvík
Breytingu á deiliskipulagi fyrir Helguvík hefur verið frestað. Þetta er niðurstaða síðasta fundar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Aðilar frá Verkfræðistofu Suðurnesja, Mannvit og Verkfræðistofunni Vatnaskil mættu á fundinn og kynntu breytingar á deiliskipulaginu fyrir ráðinu.
„Mikilvægt er að álit Skipulagsstofnunar og athugun óháðs aðila á samlegðarumhverfisáhrifum álvers og tveggja kísilvera í Helguvík liggi fyrir áður en breytingar á deiliskipulaginu í Helguvík verði sett í auglýsingar- og kynningarferli svo bæjarbúum gefist tækifæri til þess að kynna sér niðurstöðurnar og koma athugasemdum á framfæri áður en umsagnarfrestur deiliskipulagstillögunnar rennur út,“ segir í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar.