Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umfjöllun: Heitur reitur við Hafnargötu
Samkvæmt kynningu framkvæmdaaðila mun ásýnd Hafnargötunnar verða nokkurn veginn svona.
Fimmtudagur 2. febrúar 2017 kl. 09:31

Umfjöllun: Heitur reitur við Hafnargötu

Síðasti möguleiki að skila athugasemdum er í dag

Talsverður hiti hefur myndast varðandi byggingarreit við Hafnargötu 12 í Reykjanesbæ, en þar stendur til að byggja 77 íbúðir á þremur hæðum auk bílastæðakjallara. Tvö hús standa á reitnum en um áratugaskeið var þar starfsemi SBK auk þess sem bæjarskrifstofur Keflavíkurbæjar voru þarna til húsa. Á dögunum fór fram opinn kynningarfundur þar sem framkvæmdaraðilar og eigendur SBK reitsins (Hrífutangi ehf.) kynntu áformaða byggingu á svæðinu. Mikill hiti var á fundinum og virtust íbúar ósáttir við þessi áform. Um er að ræða 35-40 og 70-80 fermetra íbúðir. Í ríkjandi aðalskipulagi er eingöngu gert ráð fyrir íbúðum á lóðinni en í nýju aðalskipulagi er hugsað að þarna geti líka verið möguleiki á verslun og íbúðum saman. 

„Þetta er mjög mikilvæg lóð á mikilvægum stað fyrir bæinn okkar og til þess að tryggja aðkomu íbúa þá voru framkvæmdaaðilar skikkaðir til þess að kynna hugmyndina á opnum fundi. Nú eru tillögurnar komnar inn og vonandi koma sem flestar athugasemdir frá íbúum fyrir lok 2. febrúar (á miðnætti í dag) og við vinnum áfram með það,“ segir Eysteinn Eyjólfsson formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Hann segir að tekið verði tillit til allra athugasemda og þeim svarað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum að auglýsa verkefnið til þess að kalla eftir viðbrögðum frá samfélaginu, því fleiri sem koma að því að móta bæinn okkar, því betra. Við tökum athugasemdum og ábendingum fagnandi og munum vinna áfram að lausn sem flestir geta sæst á. Við erum að reyna að vanda okkur eins vel og við getum.“

Sóttust eftir að reisa fimm hæðir

„Við töldum okkur hafa auglýst þetta nokkuð vel, enda mættu þarna rúmlega 40 manns. Maður sá strax á stemningunni að það voru ekkert allir sáttir við þetta. Sá er hélt um kynninguna var ekki að lesa salinn alveg nægilega vel og fundurinn fór því í háaloft á tímabili,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar um kynningarfundinn. Hann segist finna vel fyrir áhyggjum fólks vegna reitsins. Guðlaugur segist hafa rætt við eigendur lóðarinnar eftir fundinn. „Mér fannst þeir vera að kaupa það sem lagt var til, að gera þetta í stíl við nágrennið og sömuleiðis að þetta væri allt of mikið byggingarmagn.“ Guðlaugur setur einnig spurningarmerki við áætluð verð á íbúðunum, sem eru 8 milljónir á þeim minni og kringum 16 milljónir fyrir þær stærri.

Í skipulagslýsingu var fyrst gert ráð fyrir fimm hæðum en umhverfis- og skipulagsráð gerði kröfu um að hámarki þrjár hæðir. Ekki var þó gerð krafa um byggingarmagn sem mörgum þykir í það mesta á lóðinni. 

„Íbúar verða að átta sig á því að það verður byggt þarna nema hreinlega bærinn kaupi upp eignirnar og hafi þetta sem opið svæði, ég á nú ekki von á því. Auðvitað þarf að finna lendingu þar sem flestir eru ánægðir, íbúar, eigendur og bæjaryfirvöld. Það er okkar verkefni. Það er ekki í mínu valdi að segja nei eða já við tillögum en ég er auðvitað ráðgefandi, sbr. tillögur sem komu fyrst upp á fimm hæðir og þá var þeim ráðlagt að breyta því,“ segir Guðlaugur sem fagnar auknum áhuga íbúa á skipulagsmálum bæjarins. „Svo það sé nú sagt, að kannski það besta í þessu öllu er að fólk fær aukinn áhuga á skipulagsmálum sem eru svakalega mikilvæg í hverju bæjarfélagi. Við héldum til dæmis tvo fundi vegna aðalskipulags á síðasta ári þar sem örfáar hræður mættu. Í mínum huga er þetta eitt mikilvægasta plagg hvers sveitafélags og enginn virðist hafa skoðun á því. Það sýnir þessu enginn áhuga fyrr en eftir á, alveg eins og með kísilverið og þungan iðnað í Helguvík. Eftir að búið er að samþykkja allt þá fyrst verður allt vitlaust.“

Slæmt hljóð í nágrönnum

„Hljóðið í fólki er alls ekki gott. Það er mikill samgangur á milli fólks hér í hverfinu og við höfum góða hugmynd um stemninguna. Það eru allir mjög spenntir fyrir því að það verði uppbygging á reitnum en finnst þessi áætlaða uppbygging af hinu slæma,“ segir Eydís Hentze Pétursdóttir, íbúi við Túngötu.

Það eru helst útlit, hæð og íbúðafjöldi sem fara fyrir brjóstið á íbúum, að sögn Eydísar. „Þetta er rosalega mikil þétting á mjög litlu svæði. Mestmegnis eru þetta einbýlishús með einstaka fjölbýli inn á milli. Íbúum myndi fjölga um nánast helming í hverfinu sem er mjög mikið.“ Íbúar í nágrenninu hafa unnið ötullega að athugasemdum enda telja þeir að um sé að ræða ýmsa formgalla á deiliskipulagstillögunni. Undirskriftum var safnað vegna málsins og gekk það vel. „Við viljum að bæjaryfirvöld sjái að þetta sé svæði sem fólki þykir vænt um og vill vernda. Þannig að þeir finni sig ekki knúna til að samþykkja hvað sem er bara af því athugasemdirnar eru ekki nægilega góðar.“

Hvernig skilar maður inn athugasemdum?

Þær skulu berast skriflega til Ráðhúss Reykjanesbæjar Tjarnargötu 12. Það gengur einnig að senda tölvupóst á póstfangið [email protected].

Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum í dag.