Umferðarstýrð ljós á Hringbraut betri en línustýrð
Lesendur halda áfram að senda okkur spurningar á [email protected] sem við leitum svara við. Lesandi spyr: „Er ekki hægt að samtengja ljósin á Hringbraut í Keflavík þannig að sá sem byrjar á fyrsta ljósi nái grænni línu í gengnum Hringbrautina. Ástæðan er að oft sér maður ökumenn auka ökuhraða yfir hámarskshraða til að ná næsta ljósi“.
Víkurfréttir leituðu svara við þessari spurningu hjá Guðlaugi H. Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar:
„Umferðarljósin á Hringbrautinni eru umferðarstýrð, sem þýðir að þegar umferð kemur frá hliðargötum td. Vesturgötu og Aðalgötu, þá fara ljósin að hleypa á þá leiðina. Þetta er talið henta betur svona „minni“ götum til að fá flæðið betra um gatnamót. Stærri götur eins og Miklabraut í Reykjavík og svoleiðis götur eru meira línustýrð, en þar er umferðin miklu meiri. Það er vel hægt að breyta þessum stýringum en ég tel þetta betri kost, því það minnkar mikið biðina frá hliðargötum og þar með minna um að ökumenn fari yfir á rauðu þeim megin“.