Umferðarslys vegna hálku
Tvö umferðarslys sem rekja má til hálku urðu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Í öðru tilvikinu skullu tveir bílar saman á gatnamótum. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Meiðsli hans munu ekki hafa verið alvarleg.
Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á svokölluðum Stafnesvegi á milli Sandgerðis og Hafnavegar. Bíllinn snérist í heilan hring og hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn slapp ómeiddur en farþegi sem í bílnum var leitaði sjálfur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann fann til eymsla í hálsi eftir óhappið. Lögregla hvetur ökumenn til að sýna varúð séu aðstæður til aksturs slæmar.