Umferðaröryggisáætlanir í Sandgerði og Garði
- Kalla eftir ábendingum íbúa
Sveitarfélögin Sandgerði og Garður kalla eftir ábendingum frá íbúum sveitarfélaganna vegna gerðar nýrra umferðaröryggisáætlana. Bæjarbúar eru hvattir til að taka virkan þátt með því að senda inn ábendingar fyrir 24. mars á netfangið [email protected] eða [email protected] eða móttöku bæjarskrifstofu Sandgerðis eða Garðs.
Sveitarfélögin og Samgöngustofa hafa undirritað samning þess efnis að umferðaröryggisáætlun verði gerð fyrir hvort sveitarfélag. Vinna við áætlanirnar hófst í byrjun árs 2016 og hafa verið skipaðir samráðshópar með helstu hagsmunaaðilum hvors sveitarfélags og fleiri aðilum tengdum þessu málefni.
Samráðshópana skipa fulltrúar frá grunnskólum, leikskólum, frístundastarfi, lögreglu, eldri borgurum, umhverfis- og skipulagssviði, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Strætó og VSÓ Ráðgjöf sem mun stýra verkefninu.
Umferðaröryggisáætlun felur í sér gerð stöðumats á umferðaröryggi sveitarfélags, slysagreiningu, markmiðasetningu, mótun aðgerðaáætlunar og forgangsröðun verkefna. Tilgangur umferðaröryggisáætlunar er að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og íbúa um umferðaröryggi. Virk þátttaka íbúa er talin mjög gagnleg og breitt samráð hagsmunaaðila mikilvægt.
Stefnt er að því að halda íbúafundi í báðum sveitarfélögum í júní þar sem helstu niðurstöður umferðaröryggisáætlana sveitarfélaganna verða kynntar.