Umferðarljós við hættuleg gatnamót
- Fjárskortur tefur uppsetningu ljósa á mótum Faxabrautar og Hringbrautar.
Tvö umferðarslys hafa orðið á gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar það sem af er þessu ári og í báðum tilfellum urðu slys á fólki. Reykjanesbær hefur fjárfest í umferðarljósum til að setja upp á gatnamótunum en uppsetning þeirra mun þó þurfa að bíða eitthvað þar sem það fé sem varið er til rekstrar gatnakerfis hefur verið af skornum skammti undanfarin ár og dugir varla fyrir lágmarks viðhaldi gatna, að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra Umhverfissviðs Reykjanesbæjar. „Það er þó möguleiki á að farið verði í þetta í sumar en um það er engu hægt að lofa,“ segir hann.
Frá byrjun árs 2007 og til loka 2014 urðu 14 umferðaróhöpp á gatnamótunum sem skráð eru hjá lögreglu. Þess ber þó að geta að sum minniháttar umferðaróhöpp þar sem ekki verða slys á fólki eru afgreidd með tjónatilkynningum tryggingafélaganna án aðkomu lögreglu, svo að fjöldinn gæti verið meiri.
Í janúar varð árekstur tveggja bíla á gatnamótunum og voru ökumenn þeirra beggja fluttir á sjúkrahús. Draga þurfti annan bílinn í burtu með dráttarbíl. Líflegar umræður um gatnamótin hafa verið á Facebook í umræðuhópnum Reykjanesbær - Gerum góðan bæ betri og hefur fólk kallað eftir breytingum á gatnamótunum til að auka öryggi akandi og gangandi vegfarenda.
Í umferðaröryggisáætlun Reykjanesbæjar frá árinu 2012 eru gatnamót Hringbrautar og Faxabrautar flokkuð sem „svartblettur“ og því varhugaverð. Þar er mikill umferðarþungi á háannatímum og umferðarhraði sömuleiðis. Þegar bílum er lagt við gatnamótin skerðist útsýni ökumanna. Guðlaugur segir gatnamótin ekki hafa verið flokkuð meðal brýnustu úrlausnarefna í umferðinni í bænum í umferðaröryggisáætluninni og því séu framkvæmdir ekki hafnar. „Við einfaldlega þurfum að forgangsraða í þessum málum og því hefur þetta setið á hakanum. Það er þó búið að bæta þessi gatnamót aðeins með því að fjarlægja bílastæði til norðurs,“ segir hann.
Reykjanesbæ hafa borist fyrirspurnir frá íbúum um það hvers vegna ekki sé sett upp hringtorg á gatnamótunum. Guðlaugur segir hringtorg ekki komast fyrir með góðu móti og að fara þyrfti inn á flestar lóðir á horninu með tilheyrandi kostnaði. Hann beinir þeim tilmælum til ökumanna að aka sérstaklega varlega á gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar þar til úrbætur verði gerðar. „Yfirleitt er hraðakstri um að kenna þegar óhöpp verða þarna og þar getum við öll bætt okkur.“
Frá umferðarslysi á gatnamótum Faxabrautar og Hringbrautar.