Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umferðar- og öryggisátak í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 17. ágúst 2004 kl. 09:25

Umferðar- og öryggisátak í Reykjanesbæ

Reykjanesbær efnir til umferðar- og öryggisátaks í bæjarfélaginu á næstunni í samvinnu við fjölmarga aðila en markmið þess er að vekja almenning til umhugsunar um umhverfi sitt og umferðarmenningu.

Átakinu verður hleypt af stokkunum við setningu grunnskólanna og ljúka á „Bíllausa deginum“ sem er seinni hlutann í desember.

Átakið er unnið í samvinnu við:
Leikskóla, grunnskóla, FFGÍR, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Lögreglu, SBK, tryggingafélög, FÍB, umferðastofu og Brunavarnir Suðurnesja.

Átakið er samstarfsverkefni Umhverfis- og skipulagssviðs og Fræðslusviðs Reykjanesbæjar og verður sérstök áhersla lögð á mikilvægi þess að skapa meira öryggi fyrir unga vegfarendur á leið í skólann. Þá er sjónum jafnframt beint til ungra ökumanna sem hafa nýlega lokið ökuprófi og eru að öðlast reynslu í umferðinni sem nýir vegfarendur.

Við upphaf skólastarfs verða settir upp borðar í nágrenni skóla og við helstu umferðarleiðir. Á borðunum er vakin athygli á ungum vegfarendum á leið í skóla og prýða þá myndir af væntanlegum nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar í haust. Á borðunum segir m.a.: „Ég er nýr í umferðinni  - sýndu tillitsemi“ og „Ég geng í skólann - mundu eftir mér“. Á sama tíma verður auglýstur 30 km hámarkshraði í grennd við alla grunnskóla bæjarins.

Unnið er að frekari dagskrá þar sem reiknað er með þátttöku ofangreindra aðila með ýmsum hætti.
Allir bæjarbúar eru hvattir til þess að taka þátt í átakinu og leggja sitt af mörkunum til öryggis í umferðinni fyrir unga vegfarendur.
 Af vef Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024