Umferðaóhöpp í hálkunni á Suðurnesjum
Ökumaður var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í morgun eftir að hafa misst bifreið sína út af Grindavíkurvegi í hálku. Ekki er vitað um meiðsl viðkomandi sem stendur. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið.
Þá varð annað hálkuslys í umferðinni á Reykjanesbraut í morgun þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún snérist á akbrautinni og hafnaði á vegriði. Ökumaður slapp ómeiddur.
Allmörg umferðaróhöpp til viðbótar hafa orðið í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á síðustu dögum. Má þar nefna að járnplata fauk á framrúðu bifreiðar sem var í akstri á Helguvikurvegi. Ökumanni brá svo við það að hann kippti í stýrið og endaði bifreiðin utan vegar. Hún var óökufær en ökumaðurinn slapp án meiðsla.
Þá hafa tíu ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum.