Umferð hleypt á tvöföldunina 1. október í stað 1. júlí
Umferð verður ekki hleypt á fyrsta kafla tvöfaldrar Reykjanesbrautar fyrr en 1. október. Verktakarnir segjast geta lokið framkvæmdum 1. júlí og opnað fyrir umferð.
Vegagerðin er ekki reiðubúin til að inna af hendi 15 milljóna króna aukaþóknun fyrir skemmri framkvæmdatíma og verða verktakarnir því fram á haust að klára verkið með lágmarksmannskap.
Áætlanir gerðu ráð fyrir verklokum þann 1. desember, en gengi verkið hraðar fyrir sig hljóðaði samningurinn upp á að verktakar fengju greitt ákveðið flýtifé frá 1. október. Verktakar hafa sent Vegagerðinni erindi þess efnis að möguleiki sé á þvi að brautin verði opnuð þann 1. júlí ef til kemur viðbótarflýtifé, en þeirri tillögu var hafnað. Fulltrúar Vegagerðarinnar sögðu í samtali við Víkufréttir að ekki hafi þótt ástæða til að ganga að tilboðinu þar sem samningar hefðu gefið ríflegan tíma til verksins og eru þeir sáttir við það fyrirkomulag sem þar kemur fram.
Halldór Ingólfsson, staðarstjóri verktakanna á Reykjanesbrautinni segir að allt stefni í að framkvæmdir muni standa fram á haust vegna þess að meirihluti mannskapsins og tækjanna sé farin í önnur verkefni sem eru framar í forgangsröðinni. „Vegagerðin vildi ekki taka þátt í þessum kostnaði. Þetta hefði getað klárast í sumar með lítilli fyrirhöfn, en þetta virðist bara snúast um viljaleysi ráðherra. Hann gæti gert þetta mögulegt, en nú verðum við hér fram á haust með lágmarksmannskap.“ Halldór bætti því við að málið snerist ekki um fjármuni því að upphæðin sem um ræðir er einungis um 2% af kostnaði við verkið. „Það virðist bara sem Suðurnesjamenn hafi færst aftar í forgangsröð ráðuneytisins.“
Steinþór Jónsson, talsmaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut, sagði í samtali við Víkurfréttir að hópurinn legði áherslu á að sú flýting sem barátta þeirra og verklag verktakanna hefðu skilað verði ekki til einskis. „Það mun hryggja okkur ef þetta verður niðurstaðan. Þó maður skilji forsendur beggja aðila verðum við að finna lausn á þessu máli.“
Steinþór bætti því við að hópurinn leggði einnig ofuráherslu á að fá svör frá ráðherra varðandi framhald tvöföldunarinnar alla leið inn að Fitjum. „Við munum ekki láta af þrýstingi fyrr en verkinu lýkur að fullu.“
VF-mynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Malbikun á Reykjanesbraut í vor