Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Umferð hleypt á Reykjanesbraut eftir 6 mánuði?
Fimmtudagur 27. nóvember 2003 kl. 09:47

Umferð hleypt á Reykjanesbraut eftir 6 mánuði?

-verktakar langt á undan áætlun og segjast geta hleypt umferð á nýjan kafla 1. júní 2004.

Framkvæmdir við breikkun fyrsta áfanga Reykjanesbrautar ganga vel og gera verktakar ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið þann 1. júní á næsta ári, sex mánuðum fyrr en ráðgert var. Að sögn Halldórs Ingólfssonar staðarstjóra við breikkun Reykjanesbrautar bera verktakar ábyrgð á verkinu einu ári eftir að umferð verður hleypt á fyrsta áfanga tvöfaldrar Reykjanesbrautar. Samkvæmt áætlunum sem gerðar voru í upphafi verksins var gert ráð fyrir að verklok yrðu þann 1. desember 2004, en sökum þess hve verkið hefur gengið vel gera nýjar áætlanir ráð fyrir að hægt verði að hleypa umferð á nýja kaflann mun fyrr eða 1. júní. Halldór segir verktaka hafa mikinn áhuga á því að umferð verði hleypt á þann 1. júní og að ábyrgðartími verktaka verði eitt ár frá þeim tíma.

Steinþór Jónsson forsvarsmaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut sagði í samtali við Víkurfréttir að verktakar hafi leitað til hópsins og óskað eftir aðstoð við að ná því fram að umferð verði hleypt á þann 1. júní. Steinþór segir það mjög mikilvægt að umferð verði hleypt á eins fljótt og kostur er. „Hópurinn fagnar að sjálfsögðu hve verkið hefur gengið vel og við munum aðstoða við að ná því fram að umferð verði hleypt á fyrr en áætlað var. Í ljósi þeirra slysa sem orðið hafa á brautinni á þessu ári er gríðarlega mikilvægt að nýi kaflinn verði sem fyrst opnaður umferð. Við hörmum slysin sem orðið hafa á brautinni og munum áfram vinna í því að framkvæmdum verði flýtt,“ segir Steinþór.

Í byrjun nóvember áttu forsvarsmenn áhugahóps um örugga Reykjanesbraut fund með Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra, en ráðherra hefur sýnt verkefninu mikinn skilning og áhuga og átt frumkvæði í þeim áföngum sem þegar hefur verið náð. Samgönguráðherra leggur áherslu á vilja sinn til að klára verkefnið á sem stystum tíma og vill samstarf við hópinn í því sambandi. Til að markmið áhugahópsins um að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar á árinu 2005 þarf viðbótarfjármagn að koma til. Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra verður endurskoðun fjárlaga á dagskrá Alþingis um næstu mánaðarmót. Telja forsvarsmenn áhugahópsins mikilvægt að þingmenn og aðrir ráðamenn svæðisins snúi bökum saman og komi þessu mikilvæga verkefni á framfæri við stjórnvöld á næstu dögum.
 
Sá Sturla Böðvarsson sérstaka ástæðu til að þakka gott samstarf við áhugahópinn og sagði að með tilkomu hans hefði vinnuumhverfi verkefnis tekið nýja og farsæla stefnu sem skilað hefði þeim árangri sem þegar liggur fyrir. Ástæða væri til að halda þessu jákvæða samstarfi áfram og klára verkið.

Steinþór Jónsson segir að í ljósi þess að verktakar séu að ljúka verkinu 6 mánuðum á undan áætlun sé ástæða til að skoða hvort það hafi áhrif á vinnu við annan áfanga brautarinnar. „Eins og ég sagði áðan fögnum við flýtingu verksins, en spyrjum um leið hvert framhaldið verður og hvenær hafist verði handa við annan áfanga við breikkun Reykjanesbrautar. Mjög mikilvægt er að þessar framkvæmdir stöðvist ekki og að annar áfangi komi í beinu framhaldi af þeim fyrr.“

VF-ljósmynd/Hilmar Bragi: Frá slysi á Reykjanesbraut um síðustu helgi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024