Umfangsmikil leit að Birnu á morgun
- Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum kallaðar út
Óskað hefur verið eftir mannskap frá björgunarsveitum um allt land í umfangsmikla leit að Birnu Brjánsdóttur á morgun, laugardag. Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa fengið boð um að senda af stað leitarhópa í fyrramálið.
Um verður að ræða eina stærstu leit sem farið hefur fram á Íslandi í áraraðir. Síðustu daga hefur verið lögð aukin áhersla á leit hér suður með sjó og hafa sérhæfðir leitarflokkar leitað á Strandarheiði og að Keili. Einnig hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið við leit á svæðinu. Þá var einnig flogið suður að Höskuldarvöllum og Keili.
Lögreglan ítrekar bón sína um að allir ökumenn sem búa yfir myndefni á tímabilinu 7:00 -11.30 að morgni síðasta laugardags, hafi samband. Óskað er eftir myndefni sem sýnir rauðan smábíl af gerðinni Kia Rio af stórum hluta suðvestanlands; á Reykjanesi, Suðurlandi, að Selfossi, og Vesturlandi, upp í Borgarfjörð.