Umfangsmikil leit á Faxaflóa: Reykurinn á Akranesi? (myndir)
Umfangsmikil leit björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur staðið yfir á Faxaflóa frá því laust fyrir klukkan níu í kvöld. Neyðarlínunni bárust þrjár tilkynningar um reyk á Faxaflóa og að hann hafi sést 4-5 sjómílur norðaustur af Njarðvík.
Björgunarskip voru send til leitar frá Reykjanesbæ, Sandgerði og Hafnarfirði. Varðskipið Týr var einnig komið til leitar ásamt þyrlunni TF-LÍF.
Enginn sást reykurinn þegar björgunarskipin komu til leitar en áhöfn þyrlunnar sá nokkra hugsanlega olíuflekki á svæðinu. Einn þeirra lyktaði af díselolíu. Ekkert hefur komið fram um að bátur hafi farið niður og björgunarmenn sem fóru frá Reykjanesbæ telja að reykurinn sem tilkynnt var um hafi í raun verið reykur úr skorsteini Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Hann sást óvenju vel frá Reykjanesbæ í kvöld og bar í sjóndeildarhringinn. Sá reykur kann því að hafa verið að villa fólki sýn.
Rétt fyrir miðnætti voru öll björgunarskipin send aftur til síns heima en varðskipið ætlaði að vera áfram á þeirri slóð þar sem olíubrákarinnar varð vart.
Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, tók meðfylgjandi myndir nú í kvöld annars vegar frá Vatnsnesi í Keflavík og hins vegar frá Hólmsbergsvita við Helguvík.
Á efstu myndinni má sjá björgunarskipið Einar Sigurjónsson frá Hafnarfirði. Á myndinni má einnig greina reykinn frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Hugsanlega er það reykurinn sem tilkynnt var um til Neyðarlínunnar í kvöld.
Á neðri myndunum má sjá varðskipið og þyrluna á vettvangi ásamt björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Varðskipið Týr og nokkur af björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
TF-LÍF flýgur yfir varðskipið Ægi. Myndirnar eru teknar með miklum aðdrætti og birtu farið að bregða.
Björgunarbifreið frá Björgunarsveitinni Suðurnes við Hólmbergsvita í kvöld.
Björgunarbáturinn Njörður kom með þetta fiskikar sem fannst á reki utan við höfnina í Njarðvík.
Þetta er nú örugglega minnsti báturinn sem tók þátt í aðgerðinni í kvöld. Skessan í hellinum í Gróf fylgist með bátnum koma inn til hafnar.