Umfangsmikil áætlunargerð um land allt
Eitt stærsta verkefni ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í hér á landi
Ferðamálastofa hefur gengið til samninga um gerð stefnumarkandi stjórnunaráætlana í öllum landshlutum. Þetta er eitt stærsta verkefni á sviði ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í hér á landi. Samið verður við markaðsstofur landshlutanna og Höfuðborgarstofu um að leiða vinnuna í hverjum landshluta.
Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness, segir í samtali við Víkurfréttir að Reykjanes standi ótrúlega vel gagnvart þessu verkefni. „Styrkleikinn okkar er að við erum með einstakt jarðfræðilegt fyrirbrygði og öll uppbygging áfangastaða er unnin út frá því. Þó að svæðið sé lítið þá erum við ótrúlega vel stödd. Við erum ekki búin að ganga of langt og getum ennþá sagt að við eigum svo mikið inni. Fólk er farið að taka meira eftir okkur og það sem er meira í umræðunni er auðveldara að selja,“ segir Þuríður.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir að verkefnið sé unnið á forsendum heimafólks á hverjum stað og að horft sé til þarfa þeirra, fyrirtækja og umhverfisþátta jafnt sem gesta.
Gert er ráð fyrir því að áætlanagerðinni sjálfri ljúki á árinu 2018. „Niðurstöðurnar munu stuðla að markvissri þróun ferðaþjónustu í hverjum landshluta og auðvelda opinbera ákvarðanatöku sem snýr til dæmis að skipulagsmálum, uppbyggingu þjónustu, aðgangsstýringu og markaðsáherslum,“ segir Ólöf.
Svæðisbundin þróun hefur verið eitt af áherslusviðum Ferðamálastofu undanfarin misseri og hefur þetta verkefni verið í undirbúningi hjá stofnuninni síðan í upphafi árs 2015, en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um gangsetningu verkefnisins.
Ferðamálastofa fjármagnar verkefnið og heldur utan um framkvæmd þess. Stofnunin mun þannig beina 100 milljónum króna af verkefnafé sínu til framkvæmdarinnar á næstu 12 mánuðum.