Umfangsmesta flugslysaæfing landsins á Keflavíkurflugvelli á morgun
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Isavia ohf. efna til umfangsmikillar viðbragðsæfingar samkvæmt flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll næstkomandi laugardag, 5. maí.
Flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á eða við Keflavíkurflugvöll. Æfingin er almannavarnaæfing þar sem allir viðbragðsþættir vegna flugslyss eru prófaðir, þ.m.t. rannsókn og úrvinnsla. Líkt er eftir flugslysi við lendingu á Keflavíkurflugvelli og æfð samvinna viðbragðsaðila með áherslu á samhæfingu og virkni áætlunarinnar. Æfingin er umfangsmesta viðbragðæfing vegna flugsamgangna sem haldin er í landinu með reglubundnum hætti.
Þátttakendur í æfingunni eru allir viðbragðsaðilar á Suðurnesjum auk viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, flugvallarstarfsmenn, slökkvilið, lögregla, landhelgisgæsla, björgunarsveitir, sjúkrahús, Rauði krossinn, flugrekendur og flugafgreiðsluaðilar, prestar og rannsóknaraðilar ásamt samhæfingarstöð almannavarna auk sjálfboðaliða sem leika munu flugfarþega og aðstandendur – alls um 350 manns. Undirbúningur æfingarinnar hefur staðið um allangt skeið en svo umfangsmikil æfing var síðast haldin á Keflavíkurflugvelli vorið 2009.