Umbætur á Reykjanesbraut ræddar í næstu viku
Ákvörðun verður tekin í næstu viku hvenær umbætur verða gerðar á Reykjanesbrautinni til að auðvelda lögreglu störf sín. Eins og komið hefur fram í fréttum Víkurfrétta segir Lögreglan í Keflavík að mikill skortur sé á svokölluðum gáttum á milli akbrauta. Aðeins eru tvær gáttir á þeim 11 kílómetra kafla tvöfaldrar Reykjanesbrautar sem nú hefur verið opnuð. Karl Hermannson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að nokkuð hafi borið á auknum hraða á brautinni.
Stefnum á fund í næstu viku
Jóhann Bergmann hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Víkurfréttir að stefnt væri á að hittast í næstu viku og ræða þessi mál. „Karl Hermannson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, hefur sagt mér að þessar tvær gáttir séu ekki nóg. Þar af leiðandi munum við hittast í næstu viku og skoða þessi mál,“ sagði Jóhann. Hann sagði einnig að það hafi verið fundur áður með lögreglunni þar sem farið var yfir þessa hluti en það var eftir að framkvæmdin hófst og þar af leiðandi var ekki bætt við gáttum í hana. „Upprunaleg hönnun á brautinni eins og hún hefur verið opnuð gerir ekki ráð fyrir fleiri gáttum,“ sagði Jóhann en bætir þó við að það sé ekkert mál að finna staði og bæta við gáttum ef svo verður. Hann talaði einnig um að auðvelt væri að gleyma sér á þessum kafla hvað hraða varðar. „Við munum að sjálfsögðu hlusta á óskir lögreglu enda hefur alltaf staðið til að endurskoða þetta þegar af þessari tvöföldun kæmi einhver reynsla.“ Jóhann sagði að lokum að þetta yrði skoðað til hlítar og ákvörðun tekin sem allir eru sáttir við.
Ökumenn á Hellisheiðinni stilla hraðanum í hóf
Víkurfréttir höfðu samband Þröst Brynjólfsson hjá lögreglunni á Selfossi sem hefur reynslu af tvöföldum akbrautum á Hellisheiðinni. Vegurinn á Hellisheiðinni er með þriðju akreinina á völdum köflum og þar af leiðandi eru aðstæður töluvert líkar þeim sem við sjáum á Reykjanesbraut. „Hraði hefur aukist á þeim köflum sem þriðja akreinin er á en það er vegna þess að mönnum gefst tækifæri á því að taka framúr en þann möguleika höfðu menn ekki áður,“ sagði Þröstur. Ólíkt því sem á sér stað á Reykjanesbrautinni stilla ökumenn á Hellisheiðinni hraðanum í hóf en Þröstur segir að mjög fáir ökumenn séu teknir fyrir of hraðan akstur á þessum köflum.
Gáttirnar mjög fátæklegar
Aðspurður um Reykjanesbrautina þá segir Þröstur að honum finnist aðstaða lögreglu á Reykjanesbrautinni ekki góð. „Ef litið er til svokallaðra gátta á milli akbrautanna þá er það afskaplega fátækleg sjón á Reykjanesbrautinni,“ sagði Þröstur. Hann er einnig ósáttur við að það sé ekki miðjugerði á brautinni þ.e.a.s. skilveggur í miðjunni eins og er t.d. á þýskum hraðbrautum. „Síðan þurfa Íslendingar að venja sig á að keyra á svona vegum t.d. verða menn að passa sig á því að keyra ekki hlið við hlið á sama hraða,“ sagði Þröstur en hann lenti í því þegar hann keyrði tvöföldunina núna um daginn.
Frekari frétta af þessu máli er að vænta á næstu dögum.
Stefnum á fund í næstu viku
Jóhann Bergmann hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Víkurfréttir að stefnt væri á að hittast í næstu viku og ræða þessi mál. „Karl Hermannson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, hefur sagt mér að þessar tvær gáttir séu ekki nóg. Þar af leiðandi munum við hittast í næstu viku og skoða þessi mál,“ sagði Jóhann. Hann sagði einnig að það hafi verið fundur áður með lögreglunni þar sem farið var yfir þessa hluti en það var eftir að framkvæmdin hófst og þar af leiðandi var ekki bætt við gáttum í hana. „Upprunaleg hönnun á brautinni eins og hún hefur verið opnuð gerir ekki ráð fyrir fleiri gáttum,“ sagði Jóhann en bætir þó við að það sé ekkert mál að finna staði og bæta við gáttum ef svo verður. Hann talaði einnig um að auðvelt væri að gleyma sér á þessum kafla hvað hraða varðar. „Við munum að sjálfsögðu hlusta á óskir lögreglu enda hefur alltaf staðið til að endurskoða þetta þegar af þessari tvöföldun kæmi einhver reynsla.“ Jóhann sagði að lokum að þetta yrði skoðað til hlítar og ákvörðun tekin sem allir eru sáttir við.
Ökumenn á Hellisheiðinni stilla hraðanum í hóf
Víkurfréttir höfðu samband Þröst Brynjólfsson hjá lögreglunni á Selfossi sem hefur reynslu af tvöföldum akbrautum á Hellisheiðinni. Vegurinn á Hellisheiðinni er með þriðju akreinina á völdum köflum og þar af leiðandi eru aðstæður töluvert líkar þeim sem við sjáum á Reykjanesbraut. „Hraði hefur aukist á þeim köflum sem þriðja akreinin er á en það er vegna þess að mönnum gefst tækifæri á því að taka framúr en þann möguleika höfðu menn ekki áður,“ sagði Þröstur. Ólíkt því sem á sér stað á Reykjanesbrautinni stilla ökumenn á Hellisheiðinni hraðanum í hóf en Þröstur segir að mjög fáir ökumenn séu teknir fyrir of hraðan akstur á þessum köflum.
Gáttirnar mjög fátæklegar
Aðspurður um Reykjanesbrautina þá segir Þröstur að honum finnist aðstaða lögreglu á Reykjanesbrautinni ekki góð. „Ef litið er til svokallaðra gátta á milli akbrautanna þá er það afskaplega fátækleg sjón á Reykjanesbrautinni,“ sagði Þröstur. Hann er einnig ósáttur við að það sé ekki miðjugerði á brautinni þ.e.a.s. skilveggur í miðjunni eins og er t.d. á þýskum hraðbrautum. „Síðan þurfa Íslendingar að venja sig á að keyra á svona vegum t.d. verða menn að passa sig á því að keyra ekki hlið við hlið á sama hraða,“ sagði Þröstur en hann lenti í því þegar hann keyrði tvöföldunina núna um daginn.
Frekari frétta af þessu máli er að vænta á næstu dögum.