Um 70 manns missa atvinnuleysisbætur
Aukinn kostnaður um 20-40 milljónir fyrir Reykjanesbæ
Kostnaður Reykjanesbæjar vegna fjárhagsaðstoðar við atvinnulausa gæti hækkað um allt að 40 milljónir króna á næsta ári. Kemur þetta til vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að höggva hálft ár aftan af því tímabili sem fólk getur þegið atvinnuleysisbætur. Tæplega 70 manns missa bætur á næstu 6 mánuðum. Frá þessu var greint í hádegisfréttum Rúv.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir þetta setja strik í reikning bæjarins. „Núna um áramótin þá eru um 25 einstaklingar sem detta út af atvinnuleysisskránni og við gerum ráð fyrir að fá hluta af þeim hingað til okkar í fjárhagsaðstoð. Síðan á næstu 6 mánuðum vitum við um rúmlega 40 einstaklinga sem eiga að detta út af atvinnuleysisbótum, en það er ómögulegt að segja til um hversu margir komi hingað í fjárhagsaðstoð hjá okkur. Við erum að áætla að kostnaðurinn verði 20-40 milljónir á næsta ári til viðbótar við það sem fyrir er,“ segir Kjartan í samtali við Rúv.
Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ráðast í breytingarnar án samráðs og án þess að taka tillit til þess hvað þær þyngja byrðar sveitarfélaganna. Kjartan tekur undir þá gagnrýni.
„Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn hafa um langt skeið bent á það að þetta þyrfti betri undirbúning og meiri samræðu og betra samstarf um þennan þátt. Okkur hefur kannski ekki orðið nógu ágengt í því,“ segir Kjartan.
Tæplega 500 manns missa rétt til atvinnuleysisbóta þegar ný lög um atvinnuleysistryggingar taka gildi um áramótin. Sá tími sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum frá ríkinu styttist úr 36 mánuðum í 30. Þannig sparar ríkið milljarð króna. Þeir sem ekki geta framfleytt sér án atvinnuleysisbóta geta þá sótt um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaganna. Þau áætla að kostnaður þeirra vegna breytinganna verði hálfur milljarður króna.