Um 6 milljarðar til uppbyggingar á Ásbrú
Samfélagið hér á Ásbrú er nokkuð ólíkt því sem gengur og gerist í öðrum hverfum Reykjanesbæjar. Það er hins vegar mjög svipað nemendagörðum við háskóla eins og á Bifröst, Akureyri og í Vatnsmýrinni. Það má segja að með tilkomu Ásbrúar þá hafi Reykjanesbær fengið á einu bretti sína eigin nemendagarða og er nú kominn í hóp helstu skólabæja landsins. Eitt einkenni nemendagarða er mikið gegnumstreymi af fólki sem stoppar tiltölulega stutt við. Til lengri tíma er markmiðið að þetta breytist og að á Ásbrú búi einnig fólk sem hafi hér langtímabúsetu. Til dæmis tengt því að þær fjölskyldur og einstaklingar sem búið hafa hér á meðan á námi stendur festi hér rætur til lengri tíma. Þetta segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, í samtali við Ásbrúarblaðið.
Íbúarnir eru að uppistöðu ungt fólk
„Annað einkenni nemendagarða er að íbúarnir eru að uppistöðu ungt fólk sem er mjög jákvætt fyrir framtíð Reykjanesbæjar og Suðurnesja í heild. Þetta er ólíkt íbúasamsetningu í öðrum hverfum Reykjanesbæjar og munu því nemendagarðar skera sig úr í öllum tölfræðilegum samanburði. Samfélögin á Bifröst, Hvanneyri og á Borgarnesi eru gerólík en þó öll í Borgarfirði. Það er ekki rétt að bera saman tölfræði frá nemendagörðum við hefðbundin íbúahverfi annars staðar án þess að leiðrétta fyrir þessum mun,“ segir Kjartan.
Kjartan segir að markmiðið á Ásbrú sé að byggja upp fjölbreytt störf og því mikilvægt að hér sé til staðar fjölbreyttur hópur fólks með mismunandi bakgrunn og reynslu til að takast á við viðfangsefnin.
„Sveitarfélög þurfa að fjárfesta í framtíðinni og reynslan sýnir að þeir staðir sem fjárfest hafa í menntun og skapað aðstöðu sem dregið hefur að menntað fólk og fólk sem vill mennta sig, þeim vegnar betur en öðrum. Menntun er ekki bara bundin við háskólamenntun heldur á að horfa til þess að auka hæfni fólks á sem fjölbreyttastan hátt.
Markmið okkar er að laða að fjölbreyttan hóp fólks til svæðisins, það býður upp á fjölbreytta uppbyggingu. Það býður upp á fjölbreytta uppbyggingu – hvort sem tengist tækni, framleiðslu, rannsóknum eða víðtækri samfélagsuppbyggingu“.
Í vasa launþega á svæðinu
Á undanförnum árum hafa þeir peningar sem fengnir hafa verið af sölu eigna á svæðinu farið nær beint í fjárfestingu og rekstur hér á Ásbrú, segir Kjartan. Í heildina eru þetta um 6 milljarðar sem skilað hafa sér í kassann af sölu eigna og því fjármagni hefur nær öllu verið varið til uppbyggingar og reksturs hér á Ásbrú.
„Þetta fjármagn hefur að miklu leyti skilað sér í vasa launþega á Reykjanesi. Ástæðan er sú að rekin hefur verið mjög markviss endurnýtingarstefna á byggingarefni sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að auki gríðarlega vægi vinnuliðar á móti efniskaupum í framkvæmdum. Þar af leiðandi hefur sú leið ekki bara sparað peninga heldur líka leitt til aukinnar atvinnu,“ segir Kjartan.
Ekki gleyma því hverju þessi uppbygging er að skila í beinu virði fyrir samfélagið hér. Íbúar Ásbrúar eru að stofninum til námsmenn sem annars myndu ekki búa á Suðurnesjum. Þeir auka við flóruna í samfélaginu og skapa sterkan grundvöll að framtíðaruppbyggingu með þekkingu sinni.
„Við eigum að gera okkar besta til að skapa þeim góðar aðstæður í okkar samfélagi, það mun skila sér til framtíðar. Við megum heldur ekki gleyma því að þeir ásamt þeim fyrirtækjum sem eru komin og eru að vaxa á Ásbrú eru hluti af samfélagi okkar og auka virði þess í nútíð og framtíð. Þeir versla í búðinni, sækja tónleika og viðburði, nota þjónustu og kaupa vörur. Þeir taka þannig þátt í því að efla samfélagið með tilveru sinni“.
500 manna vinnustaður
Á Ásbrú starfa um 500 manns. Stór hluti þeirra starfar með beinum eða óbeinum hætti að því að þjónusta íbúana. Fæstir þeirra búa hins vegar innan Ásbrúar sjálfir. Þeir búa í öðrum hverfum Reykjanesbæjar eða jafnvel öðrum sveitarfélögum á svæðinu og þannig hefur Ásbrú bein áhrif á afkomuna þar.
„Auðvitað fylgir því kostnaður að halda úti nýju hverfi á Ásbrú eins og annars staðar, en hann mun skila sér á Ásbrú eins og hann gerir í öðrum hverfum og jafnvel rúmlega það. Ástæðan er sú að óvíða er unnið með eins markvissum hætti að uppbyggingu samfélags og atvinnu eins og á Ásbrú,“ segir Kjartan og bætir við:
„Fyrir Suðurnesjamenn þá er það mikilvægt að láta ekki tímabundna erfiðleika ná tökum á okkur. Það er algerlega klárt í mínum huga að þó að Suðurnesin séu að fara í gegnum tímabundna erfiðleika þá eru framtíðartækifærin hvergi meiri en hér. Stór hluti af hagvexti Íslands mun koma frá þessu svæði á komandi árum. Hér er til staðar nægt landrými, orka og hrein og falleg náttúra. Hér er kraftmikið fólk sem býr yfir víðtækri þekkingu. Nú ef að þekkingin er ekki til staðar á okkar svæði þá erum við aðeins um 40 mínútur að aka henni frá Reykjavík, nú og ef hún er ekki þar þá erum við bara um 3 tíma að fljúga henni inn frá Evrópu og um 5 tíma frá Ameríku. Þetta eru algerlega einstök tækifæri,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, í samtali við Ásbrúarblaðið.
VIÐTALIÐ Í HEILD SINNI Í PDF-FORMI