Um 40 einstaklingar nota þjónustu Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum
Frú Ragnheiður og staða heimilislausra í Reykjanesbæ var til umræðu á síðasta fundi velferðarráðs Reykjanesbæjar. Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum, og Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, mættu á fundinn undir þessum lið.
Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar.
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri, kynnti verkefnið Frú Ragnheiður á Suðurnesjum sem hófst í júní 2020 og hefur farið ört stækkandi síðan. Á þessu ári eru um 40 notendur sem skiptast nokkuð jafnt milli kynja. Jóhanna fylgir eftir málum sem koma inn í bílinn og stendur til að hækka starfshlutfall hennar en til þess þarf meira fjármagn í verkefnið. Verkefnið eignaðist sinn eigin bíl í byrjun árs. Það sem af er árinu 2022 hafa 38 einstaklingar leitað til Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum og heimsóknir eru samtals 374. Nú þegar hefur verið fargað 207 lítrum af notuðum sprautubúnaði.
Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, fór á fundinum yfir stöðuna varðandi heimilislausa einstaklinga í Reykjanesbæ.