Um 1700 eftirskjálftar - Tveir snarpir skjálftar í morgun
Um 1700 eftirskjálftar hafa mælst í skjálftahrinunni sem hófst í gær. Hrinunni er ekki lokið og nú í morgun mældust tveir skjálftar í Fagradalsfjalli annar kl. 06:05 af stærð 3,7 og sá síðari kl. 06:23 af stærð 3,8. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í byggð á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð.
Veðurstofunni hefur borist talsvert af tilkynningum um grjóthrun á Reykjanesi og er ferðafólki bent á að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum á meðan líkur eru á áframhaldandi skjálftavirkni.
Eins hafa borist tilkynningar um aukna gaslykt í nágrenni Grænavatns á Núpstaðahálsi í tengslum við jarðskjálftana.
Veðurstofan mun áfram fylgjast vel með virkninni á svæðinu.