Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Um 170 skjálftar nærri Sundhnúkagígaröðinni á tveimur sólarhringum
Ljósmynd: Almannavarnir
Föstudagur 15. mars 2024 kl. 13:38

Um 170 skjálftar nærri Sundhnúkagígaröðinni á tveimur sólarhringum

Í gær, 14. mars, mældust um 70 jarðskjálftar nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík og svipar það til virkni síðustu daga. Þann 13. mars mældust um 100 jarðskjálftar nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík. Samtals gerir þetta um 170 jarðskjálfta.

Líkindareikningar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á sama hraða og áður og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi, segir í athugasemd jarðvísindamanns á vef Veðurstofu Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt nýjustu aflögunarmælingum og gervitunglagögnum heldur kvikusöfnun undir Svartsengi áfram með sambærilegum hraða og fyrir kvikuhlaupið 2. mars. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum staðfesta að kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður.

Í tengslum við eldgosin 14. janúar og 8. febrúar og kvikuhlaupið 2. mars, hefur það sýnt sig í öllum tilfellum að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hafi þurft að ná um 10 milljón rúmmetrum áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Möguleg tímasetning á næsta eldgosi hefur verið byggð á því að reikna út magn kviku sem hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina í hvert sinn og síðan hversu marga daga það mun taka að safna aftur upp í sambærilegu magni kviku undir Svartsengi.