Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Um 1000 manns við útför Vilhjálms Ketilssonar
Föstudagur 12. september 2003 kl. 16:31

Um 1000 manns við útför Vilhjálms Ketilssonar

Fjölmenni var við útför Vilhjálms Ketilssonar sem gerð var frá Keflavíkurkirkju í dag. Kirkjubekkurinn var þétt setinn og jafnframt Kirkjulundur. Fram kom í ræðu séra Ólafs Odds Jónssonar sóknarprests Keflavíkurkirkju, sem jarðsöng, að um 1000 mann hafi verið við útför Vilhjálms.

Tónlist og söngur einkenndu útförina en Páll Rósinkrans söng nokkur lög. Í ræðu sinni kom séra Ólafur Oddur inn á sorgina sem fólk víða um heiminn glímir við. Á sama tíma og Svíar syrgja Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, syrgir fólk í Keflavík annan leiðtoga, Vilhjálm Ketilsson.

Séra Ólafi var tíðrætt um hversu auðvelt Vilhjálmur ætti með að ná til barna og það væri náðargjöf sem ekki öllum væri gefin. Skólamálin voru Vilhjálmi hugleikin en hann var skólastjóri Myllubakkaskóla í Keflavík í aldarfjórðung, að undanskildum tveimur árum sem hann gegndi stöðu bæjarstjóra í Keflavíkurkaupstað. Eftir tveggja ára starf bæjarstjóra sagði hann skilið við bæjarstjórastólinn með þeim orðum að skólinn væri hans staður.

Það voru þeir Garðar Ketill, Svanur og Margeir Vilhjálmssynir, Sturlaugur Ólafsson, og bræðurnir Magnús, Sigurgísli, Páll og Valur sem báru kistu Vilhjálms úr kirkjunni. Líkfylgdin ók síðan framhjá Myllubakkaskóla þar sem allir nemendur skólans stóðu heiðursvörð með hvíta fána með merki skólans. Sérstök minningarathöfn var haldin í gær í Keflavíkurkirkju fyrir 600 nemendur Myllubakkaskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024