Um 1000 manns tók þátt í friðargöngu í Grindavík
Hin árlega friðarganga í Grindavík fór fram í gær og var hún vel sótt. Nemendur og starfsfólk í grunnskólunum, leikskólunum Laut og Króki og tónlistarskólanum ásamt foreldrum og fjölmörgum öðrum tóku þátt að þessu sinni.
Gengið var fylktu liði frá stofnunum að Landsbankatúninu. Talið er að um þriðjungur bæjarbúa eða um eitt þúsund manns hafi tekið þátt í þessari hátíðlegu stund en markmið göngunnar er að efla samkennd og samhug með því að boða jákvæðni, gleði og kærleika meðal okkar.
Slökkt var á ljósastaurum í bænum en flestir göngugarpar voru með vasaljós og því skapaðist skemmtileg stemmning. Myndaðir voru friðarhringir og sáu eldri nemendur um að aðstoða þá yngri og leikskólabörn. Séra Elínborg Gísladóttir sóknarprestur flutti friðarboðskap og þá voru sungin tvö jólalög. Þetta var látlaus en áhrifamikil stund. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar og þar má finna fjölmargar myndir frá göngunni.