Úlfar undir feldi með opnun Grindavíkur
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, metur í dag stöðuna á fyrirkomulagi opnunar Grindavíkur í kjölfar afléttingar fyrirmæla embættis ríkislögreglustjóra á brottflutningi frá bænum. Afléttingin tók gildi á miðnætti en hún hafði verið viðvarandi síðustu fimm vikur.
Í hættumati Veðurstofu Íslands frá 13. janúar, var talin hætta á jarðskjálftum, sprungum, hraunflæði og sprunguhreyfingum í Grindavík. Þann 13. janúar sl. tók embætti ríkislögreglustjóra ákvörðun um brottflutning úr Grindavík á grundvelli 24. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008, sem tók gildi til þriggja vikna frá 15. janúar. Eldsgos varð þann 14. janúar sem rann inn í byggð. Þann 4. febrúar var ákvörðunin framlengd til 19. febrúar. Annað eldgos varð á Reykjanessvæðinu þann 8. febrúar sl.
Unnið hefur verið að gerð leiðbeininga í formi áhættumats, þar sem hættumat Veðurstofu og mótvægisaðgerðir eru lögð til grundvallar. Þá hefur verið unnið að gerð leiðbeininga með því að jarðkanna götur og svæði í Grindavík, til þess að unnt sé að meta áhættu í bænum.
Í hættumati Veðurstofu frá 15. febrúar er talin hætta í Grindavík á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Þann 18. febrúar var unnið áhættumat vegna skyndilegra opnunar á sprungum í Grindavík, bæði þeim sem vitað er um og þeim sem kunna að vera huldar. Þá er jafnframt talin minni hætta á stærri jarðskjálftum.
Niðurstaða áhættumats Almannavarnadeildar vegna sprunguhættu er á þann veg að áhættan fyrir dvöl og starfsemi í Grindavík sé ásættanleg m.a. með hliðsjón af þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til.
Unnið að jarðskoðun í Grindavík
Til þess að meta áhættu af sprungum og sprunguopnunum hefur verið unnið að jarðskoðun í Grindavík, m.a. með kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Í dag, 18. febrúar 2024 er búið að jarðskoða hluta jarðvegs með jarðsjám og greina hluta þeirra gagna.
Framkvæmdin á jarðkönnuninni var skipt niður í þrjá fasa.
Fasi 1 – Tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun.
Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja.
Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar bússetu á svæðinu.
Í fasa 1 og 2 er áhersla lögð á jarðkönnun á götum og vegum svo aðilar geti ferðast um bæinn. Í fasa 3 er lögð áhersla á jarðkönnun í heildar skoðun á bænum sem byggir á rannsóknum í fasa 1 og 2 en nær þá yfir öll opin svæði.
Reiknað er með að ljúka fasa 1 og 2 fyrir miðjan mars. Fasi 3 hefst ekki fyrr en í vor þegar snjóa leysir.
Hættuleg svæði girt af en óljóst um ástand hluta bæjarins
Í ljósi þessarar óvissu hafa hættuleg svæði hafa verið girt af en óljóst er um ástand á hluta bæjarins hvað varðar sprungur og sprunguhreyfingar og er fyrirséð að óhjákvæmilegt verði að takmarka aðgengi og umgengni að þeim svæðum, samanber áhættumat og jarðvegsskoðun á hverjum tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu heldur landris áfram við Svartsengi, Skipastígshraun og nágrenni. Ekki er hægt að segja til um hvað það þýðir en talið er að um næstu mánaðarmót nái kvikumagn svipuðu rúmmáli og 18. desember 2023, 14. janúar og 8. febrúar 2024 þegar eldgos hófust. Kvikuhlaup sem endað gæti í eldgosi er því yfirvofandi.
Alvarlegar brotalamir í innviðum Grindavíkur
Alvarlegar brotalamir eru enn til staðar í innviðum Grindavíkur varðandi vegi, götur og opin svæði, heitt vatn og neysluvatn, rafmagn, fráveitu og fjarskipti. Veður getur haft áhrif á vöktunargetu til vegna hættuatburða og það sem getur leitt af sér lengri viðbragðs- og rýmingartíma í hættuástandi.
Í ljósi aðstæðna og hættu á svæðinu, sem íbúum er kunnugt um, liggur fyrir að aðgengi um svæðið mun vera ákveðnum skilyrðum háð eðli málsins samkvæmt. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum metur hættuna samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og gefur út ábendingar eða tekur ákvörðun um rýmingu á ákveðnum svæðum sé þess þörf.
Áfram unnið að markvissu og reglubundnu mati
Áfram verður unnið að markvissu og reglubundnu mati á stöðu jarðvegs og annnarra mála og á grundvelli þess séu teknar ákvarðanir um frekari mótvægisaðgerðir gegn þeirri áhættu sem til staðar er, jafnvel þær sem kunna að fela í sér takmarkanir eða skilyrði um för eða viðbúnað. Þá er mikilvægt að íbúar og fyrirtæki sem hafa starfsemi í bænum standi að traustu skipulagi öryggismála og viðbragðs. Jafnframt skal uppfylla lögbundnar skyldur hvað varðar vinnuöryggi, brunavarnir o.fl.