Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Uggur í starfsmönnum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli eftir ræðu forsætisráðherra
Þriðjudagur 21. mars 2006 kl. 13:20

Uggur í starfsmönnum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli eftir ræðu forsætisráðherra

Ræða Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, á borgarafundi í Stapa í gærkvöldi skapaði óvissu og ugg meðal starfsmanna Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Hjá Flugmálastjórninni á Keflavíkurflugvelli starfa í dag um 60 manns. Í ræðunni talaði Halldór um samstarfshóp fjögurra ráðuneyta sem hafi verið skipaður. Það vakti því athygli starfsmanna Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli að þeirra vinnuveitandi var ekki nefndur til leiks þegar rætt var um framtíðarskipan mála á Keflavíkurflugvelli.

Samstarfshópurinn myndi kalla til sérfræðinga og hagsmunaaðila en í sambandi við yfirtöku á Keflavíkurflugvelli skiptu þrjár stofnanir meginmáli; Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Landhelgisgæslan og sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli. Flugstöðin gæti komið að rekstri flugbrauta og hugsanlega slökkviliðinu.

Halldór sagði að kaupa yrði þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna og að hún yrði að að verulegu leyti, hugsanlega öllu leyti starfrækt á þessu svæði. Þá yrði sýslumannsembættið hugsanlega sameinað Landhelgisgæslunni.

Í dag annast Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli rekstur flugbrauta í samstarfi við Varnarliðið og alla flugumferðarþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Þá sér Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli um alla stjórnsýslu vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Steingrímur S. Ólafsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðherra, sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að ekki væri vitað með hvaða hætti Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli kæmi að framtíðarrekstri á svæðinu. Umræður um þau mál væru ekki komnar það langt í ráðuneytinu.

Jón Egill Egilsson, skrifstofustjóri hjá Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, lagði áherslu á í samtali við Víkurfréttir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um framtíðarskipan mála á Keflavíkurflugvelli. Beðið sé eftir upplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum og því ekki tímabært að ákveða nokkuð um rekstrarfyrirkomulag. Það sé hins vegar ljóst að tekið verið tillit til allrar þeirrar starfsemi sem í dag sé á Keflavíkurflugvelli og breytingar verði í góðu samráði við flugvallarstjóra, sem og aðra aðila á Keflavíkurflugvelli.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024