Uggur í íbúum vegna Hákotstanga
Undirskriftalisti á vegum Foreldraráðs Akurskóla var fyrir helgi afhentur framkvæmdastjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar. Foreldraráð Akurskóla stóð að undirskriftasöfnuninni en með henni er þeim tilmælum beint til skipulagsráðs að gæta þess sérstaklega að auka ekki umferð á gönguleiðum nemenda Akurskóla. Er vísað til auglýstrar skipulagstillögu að Hákotstanga í Innri-Njarðvík þar sem gert er ráð fyrir hátt í 200 íbúðum í 6-10 hæða turnum og átta minni fjölbýlishúsum.
Nokkur uggur hefur verið meðal íbúa í Innri-Njarvík vegna skipulagstillögunnar því undirskriftalisti vegna hennar hefur áður verið afhentur bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri USK, segir málið verða unnið í sátt við íbúana.
Foreldraráð og Foreldrafélag Akurskóla sendu inn sitthvort athugasemda bréfið vegna skipulagstillögunnar og í framhaldi stóð foreldrafélagið að undirskriftasöfnun þar sem 160 manns rituðu nöfn sín. Með undirskriftunum er auglýstum breytingum á aðal- og deiliskipulagi Hákotstanga hafnað á þeim forsendum að umferðarþungi muni aukast verulega í nágrenni skólans og þar með ógna öryggi barna á leið í og úr skóla.
Tillagan gerir ráð fyrir fimm íbúða turnum 6 -10 hæða og átta 2ja hæða minni fjölbýlum. Samtals er gert ráð fyrir ca. 190 íbúðum á svæðinu. Aðal aðkomuleið á svæðið er um Tjarnargötu, Njarðvíkurbraut og um væntanlega nýja tengibraut milli Tjarnargötu og Stapagötu.
Máli sínu til stuðnings benda íbúarnir á kafla í skipulagsreglugerð þar sem skýrt er kveðið á um að skipulagningu íbúðarsvæði skuli jafnan hagað þannig að sem minnst umferð verði um húsagötur og að gönguleiðir barna á leiksvæðum, leikskólum og skólum séu öruggar.
Mynd/elg: Hafdís Norðfjörð Hafsteinsdóttir, formaður Foreldrafélags Akurskóla, afhenti Guðlaugi H. Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra USK, undirskriftalistann.