Ufsa- og makríltorfur við Gerðabryggju
Fjöldi fólks er daglega á bryggjusporðinum í Garði, hinni einu sönnu Gerðabryggju, við veiðar. Mikið magn af makríl hefur veiðst við bryggjuna í sumar. Síðustu tvo daga hefur orðið vart við stórar torfur af svokölluðum bryggjuufsa og einnig hafa makríltorfur látið sjóinn krauma við bryggjuna.
Flestir þeirra veiðimanna sem eru við veiðar í Garði eru af erlendu bergi brotnir og er allur makríllinn tekinn og eldaður. Íslenskir veiðimenn blanda sér einnig í hópinn en eru í minnihluta.
Lesandi sem hafði samband við Víkurfréttir hafði áhyggjur af öryggi þeirra sem væru við veiðar í Garði. Þar væru lítil börn á hlaupum innan um veiðimenn og því miður væru fáir sem engir í björgunarvestum. Þá væri einnig svolítið um það að rusli væri kastað á bryggjuna og sóðaskapur nokkur að afloknum veiðidegi.
Sportkafari sem Víkurfréttir ræddu við hefur einnig áhyggjur af bryggjuveiðinni í Garði. Svæðið við Gerðabryggju sé kjörið til köfunar en hins vegar sé stórhættulegt að vera við köfun innan um risastórar þríkrækjur ágengra veiðimanna. Menn geti því auðveldlega komið upp með öngulinn í rassinum í orðsins fyllstu merkingu. Kafarinn vildi því koma á einhverskonar tímatakmörkum á veiðar, þannig að stangveiðifólk og kafarar lentu ekki í árekstrum.
Myndir: Makrílveiðar á Gerðabryggju á síðasta sumri. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson