Týnda Jamestown akkerið komið á þurrt
Akkeri af skipinu Jamestown, sem strandaði við Hafnir árið 1881, var híft upp úr hafi í kvöld eftir 127 ára dvöl í hafi.
Tómas Knútsson, kafari og athafnamaður með meiru, ásamt félaga hans, Davíð Sigurþórsson, fundu gripinn á hafsbotni fyrir sex árum síðan en komu því loks á land við bryggjuna í Höfnum í kvöld.
Akkerið er engin smásmíði, um tvö tonn á þyngd, en því var ekið til Sandgerðis þar sem það verður í nokkurn tíma í „afsöltun“. Í því felst að akkerið liggur í sjóbaði sem er þynnt út smátt og smátt með ferskvatni, jafnvel um nokkurra mánaða skeið, til að koma í veg fyrir að málmurinn springi.
Þegar því ferli er lokið mun akkerinu verða fundinn viðeigandi staður í Sandgerðisbæ.
Þessi fundur er stórmerkur að mörgu leyti. Er þetta síðasta akkerið sem ófundið var, en nú þegar stendur eitt þeirra gegnt kirkjunni í Höfnum og tvö önnur liggja í höfninni í Vestmannaeyjum þangað sem þau voru flutt fyrir mörgum áratugum.
Jamestown var gríðarstórt bandarískt seglskip, 207 fet á lengd eða 63 metrar, að því er fram kemur í ítarlegri og vandaðri grein eftir Leó M. Jónsson sem rannsakaði sögu skipsins. Greinina, sem stuðst er við í eftirfarandi texta, má finna á heimasíðu Leós, en í henni kemur m.a. fram að skipinu var fyrst hleypt af stokkunum árið 1879.
Áður en Jamestown rak upp í fjöru á Íslandi þann 26. júní 1881, lagði það af stað frá Maine-fylki í Bandaríkjunum til Liverpool með timburfarm. Í febrúar það sama ár hafði það rekið mannlaust um N-Atlantshaf frá því að úrvinda áhöfnin yfirgaf skipið, stórlaskað, í febrúar sama ár og voru látin í land í Glasgow.
Jamestown var hlaðið timbri, eins og áður sagði, og náðist að bjarga hluta farmsins sem var svo notaður til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar.
Ekki liðu þó nema nokkrir dagar frá því að skipið strandaði þar til það brotnaði í spón í óveðri og hvarf. Síðan hafa fundist munir úr því með reglulegu millibili og er enn fjölmargt af munum úr Jamestown að finna á hafsbotni. Fjögur akkeri hafa þegar fundist en sumar heimildir herma að akkerin gæti hafa verið fimm. Ævintýramaðurinn Tómas var kátur og reifur þegar flykkið stóra var komið á þurrt, en hann er ekki hættur enn. „Það skyldi þó ekki vera að maður finni einhversstaðar fimmta akkerið!“ sagði hann í samtali við Víkurfréttir og hló.
Myndir og texti: Þorgils Jónsson
Heimild: „Jamestown-strandið“, www.leoemm.com - Skyldulesning fyrir áhugamenn um söguna.