Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvöföldunarframkvæmdir: Staðan metin milli jóla og nýárs
Föstudagur 21. desember 2007 kl. 17:32

Tvöföldunarframkvæmdir: Staðan metin milli jóla og nýárs

Vegagerðin hyggst meta stöðuna varðandi framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar á milli jóla og nýárs. Eins og fram hefur komið er aðalverktakinn, Jarðvélar ehf., í kröggum og hafa lánadrottnar tekið flestar vinnuvélar þannig að útséð er með að þeir geti klárað verkefnið.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í samtali við Víkurfréttir að þá yrði staðan metin og ákveðið hverjir myndu halda verkinu áfram og hvernig verði staðið að því að velja nýja verktaka. Hann bætti við að honum þætti líklegt að bjóða þyrfti verkið út að nýju.

„Við stefnum að því að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst, en það er ómögulegt að segja hvenær það gæti verið. Ef Jarðvélar verða svo gjaldþrota er spurning hvað þrotabúið vill gera, en það er ekki ljóst hvað verður í því. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að klárast áður en Vegagerðin getur farið að taka endanlegar ákvarðanir, en möguleikarnir í stöðunni verða skoðaðir milli jóla og nýárs.“

VF-símamynd/Þorgils - Vörubíll flytur vinnuvél Jarðvéla burtu af starfssvæði við Reykjanesbraut.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024