Tvöföldum Reykjanesbrautar flýtt
Vegagerðin hefur ákveðið að flýta framkvæmdum við breikkun Reykjanesbrautar og verður 3,5 kílómetra kafli breikkaður í átt til Keflavíkur í þessum fyrsta áfanga, til viðbótar við þá 8 kílómetra sem þegar er unnið að. Kostnaður við aukakaflann er um 200 milljónir króna og með þessum framkvæmdum er verkið um það bil hálfnað og nær kaflinn langleiðina að Vogaafleggjara. Hjálmar Árnason alþingismaður Framsóknarflokksins sagði í samtali við Víkurfréttir að góð samstaða hafi verið innan þingmannahópsins um þessa flýtingu á framkvæmdum. „Vegagerðin mat það svo að sökum hagstæðra samninga við verktaka um fyrri áfangann var ákveðið að semja við verktakana á sömu kjörum um þennan aukakafla. Ég er himinlifandi með þetta og þetta er falleg sumargjöf til okkar Suðurnesjamanna.“