Tvöföld Reykjanesbraut orðin að veruleika

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, opnaði brautina að viðstöddu fjölmenni þ.m.t. þingmanna Suðurkjördæmis.
Rúta frá SBK vígði brautina, en svo skemmtilega vildi til að bílstjórinn, Valgeir Sighvatsson, var einnig sá fyrsti sem keyrði nýja Reykjanesbraut 26. október 1965. Hann ók þá á rútu frá SBK og á enn miða nr. 1 um veggjald á Reykjanesbraut. Eftir fylgdu ráðherra, Áhugahópurinn um örugga Reykjanesbraut og fulltrúar verktaka og vegagerðarinnar.
Í kaffisamsæti sem var haldið í Glaðheimum í Vogum lýsti samgönguráherra yfir vilja þins og stjórnar til að afla fjármuna til að hægt verði sem fyrst að klára framkvæmdina.
Hann sagðist einnig ánægður með framkvæmdina og vel hafi til tekist en lagði þó áherslu á að ökumenn fari gætilega. „Hversu góð umferðarmannvirki sem við fáum eru það fyrst og fremst ökumennirnir sem að tryggja umferðaröryggi“.
Sturla sagði Reykjanesbrautina mikilvæga samgönguæð fyrir allt landið og bætti því við að framhald framkvæmda verði tekið fyrir á næsta þingi. „Við höfum verið að undirbúa samgönguáætlun fyrir næstu ár og vænti ég þess að við náum góðum áföngum í framkvæmdum á því tímabili sem nú er til meðferðar.“

Steinþór þakkaði Árna R. Árnasyni, þingmanni kjördæmisins, sérstaklega fyrir framlag sitt í baráttunni, en Árni lagði fram fyrstu þingsályktunartillöguna um málefni Reykjanesbrautar. Hann lauk orðum sínum með því að segjast vonast til þess að áfanginn myndi gera brautina öruggari en sagði baráttuni ekki lokið. „Á næstu vikum mun áhugahópurinn halda áfram fundum með samgönguráðherra og þingmönnum en samhliða því vinna áfram að bættri umferðamenningu á nýrri Reykjanesbraut. Landsmenn geta glaðst með áhugahópi um örugga Reykjanesbraut. Ykkar draumur er að verða að veruleika!“
VF-myndir/Þorgils Jónsson