Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvöföld Reykjanesbraut opnuð eftir 2 vikur
Fimmtudagur 15. júlí 2004 kl. 10:04

Tvöföld Reykjanesbraut opnuð eftir 2 vikur

Baráttan skilar árangri segir Steinþór Jónsson formaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut.

Umferð verður hleypt á fyrsta áfanga tvöfaldrar Reykjanesbrautar fimmtudaginn 29. júlí, fjórum mánuðum fyrr en í fyrstu var áætlað. Samkvæmt útboði áttu verktakar að ljúka fyrsta áfanga þann 1. desember á þessu ári. Minniháttar frágangi við gatnamót mun ljúka síðar.
Steinþór Jónsson formaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut segir að baráttan sé loksins að skila árangri. „Þessi lokabarátta hefur tekið mikið á og kallað á mikla þrautseigju. Síðustu vikur hafa verið mjög annasamar í þessu verkefni því eins og allir vita gat Vegagerðin ekki orðið við beiðni verktaka um frekara flýtifé og því allt útlit fyrir að þessi kafli myndi ekki opnast fyrr en í vetur. Eftir ítrekaðar viðræður við Vegagerð og verktaka hafa þeir nú náð saman um opnun þann 29. júlí n.k. án þess að til komi frekari greiðsla á flýtifé,“ sagði Steinþór í samtali við Víkurfréttir.

Verktakafyrirtækin sem vinna við breikkun Reykjanesbrautar áttu samkvæmt útboði að ljúka fyrsta áfanganum þann 1. desember. Það varð hinsvegar ljóst fljótlega eftir að framkvæmdir hófust að hægt yrði að opna nýja áfangann tveimur mánuðum fyrr og ákvað vegagerðin að greiða fyrirtækjunum flýtifé. Þegar svo ljóst varð að verktakarnir gætu enn frekar flýtt verkinu og opnað fyrsta áfanga í lok júlí skiluðu viðræður við samgönguyfirvöld ekki árangri varðandi frekara flýtifé. Rök samgönguyfirvalda voru þau að greiðsla á frekara flýtifé væri fordæmisgefandi. Steinþór segir að áhugahópurinn hafi ákveðið að gefast ekki upp og hófu forsvarsmenn hópsins viðræður við verktaka um að klára verkið í sumar.

Þrýstingur almennings skiptir máli
Verktakafyrirtækin sem vinna að breikkun Reykjanesbrautar, Háfell, Eykt og Jarðvélar hafa unnið með áhugahópnum frá upphafi framkvæmda og segir Steinþór að fyrirtækin hafi sýnt þrýstingi almennings vegna framkvæmdanna skilning. „Nú hafa þessir höfðingjar ákveðið, þegar allar leiðir virtust lokaðar, að leggja sitt að mörkum í þessu mikilvæga máli og stuðla að því að umferð verði hleypt á mun fyrr en ella. Fyrir þetta kunnum við þeim miklar þakkir svo og Jónasi Snæbjörnssyni hjá Vegagerðinni sem náði þessu samkomulagi fyrir hönd stofnunarinnar. Það er ekki vafi í okkar huga að faglegur þrýstingur almennings frá því borgarafundurinn 11. janúar 2001 var haldinn hefur skilað miklum árangri og fyrir vikið erum við komnir að þessum tímamótum. Fjöldi aðila hefur komið hér að málum og hefur hópnum borist mikill fjöldi símtala og tölvupóstsendinga í gengum tíðina. Ábendingarnar hafa verið jákvæðar og við höfum undantekningarlaust komið þeim á framfæri. Þá má nefna síðasta framtakið þegar unglingar úr Sandgerði og Garði söfnuðu undirskriftum málinu til stuðnings.”

Tvöföldun verði lokið fyrir lok ársins 2005
Samkvæmt vegaáætlun liggur ekki fyrir hvenær hafist verður handa við breikkun seinni hluta brautarinnar. Sú ákvörðun verður tekin formlega í haust þegar þing kemur saman eftir sumarfrí og ræðir endurskoðun vegaáætlunar. „Það voru gefin loforð á borgarafundinum árið 2001 sem skulu standa. Við höfum átt í viðræðum við samgönguráðherra að undanförnu en nýr fundur hefur verið boðaður í lok júlí. Þar munum við enn og aftur gera honum grein fyrir okkar kröfum sem eru enn þær sömu – tvöföldun alla leið fyrir lok ársins 2005.“'

Myndin: Síðasti hluti fyrsta áfanga tvöfaldrar Reykjanesbrautar malbikaður í vor. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024