Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Tvöföld Reykjanesbraut: Jarðvélar lægstar - áhugahópur þrýstir á hraðari framkvæmd
Þriðjudagur 8. nóvember 2005 kl. 17:27

Tvöföld Reykjanesbraut: Jarðvélar lægstar - áhugahópur þrýstir á hraðari framkvæmd

Jarðvélar ehf. buðu 1.175 milljónir króna í framhald tvöföldunar Reykjanesbrautar, en tilboð voru opnuð í dag. Jarðvélar sáu um fyrri hluta tvöföldunarinnar ásamt Háfelli og Eykt. Háfell ehf. bauð einnig í verkið núna ásamt Ris ehf. og var tilboð þeirra 21 milljón krónum hærra en tilboð Jarðvéla. Tilboð Jarðvéla hljóðar upp á rúm 75% af áætluðum kostnaði við verkið.

Framkvæmdin sem um ræðir er tvöföldun á rúmlega 12 km. kafla frá Strandarheiði að Njarðvík. Þá á verktakinn að sjá um byggingu tveggja brúa við Vogaveg, tveggja brúa við Skógfellaveg (á kaflanum milli Voga- og Grindavíkurgatnamóta), tveggja brúa við Grindavíkurveg og tveggja brúa við Njarðvíkurveg. Áætluð verklok eru þann 1. júní 2008.

Fulltrúar áhugahóps um örugga Reykjanesbraut, sem barist hafa fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, voru við opnun tilboðanna í dag ásamt Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Áhugahópurinn hefur lagt á það áherslu að verktakinn sem fái verkið flýti því enn frekar, en eins og áður segir eru áætluð verklok í júní 2008.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024