Tvö slys á Grindavíkurvegi í kvöld og tveir brunar í dag
Mikið annríki hefur verið á dagvaktinni hjá Brunavörnum Suðurnesja í dag. Slökkviliðsstjórinn, Jón Guðlaugsson, segir daginn hafa farið rólega af stað með einu brunaútkalli fyrir hádegi. Uppúr hádeginu hafi hins vegar færst fjör í leikinn, og á tímabilinu 13:26 til 19:30 hafi komið átta útköll. Þar af var eitt brunaútkall til viðbótar og svo tvær bílveltur nú eftir kvöldmat.
Bílvelturnar urðu á Grindavíkurvegi við Seltjörn. Þar myndaðist svokallaður frostpollur á veginum þar sem hann stendur lágt í landinu og veðurskilyrði eru nú með þeim hætti að þokuloft og hitastig nálægt frostmarki eiga ekki vel saman.
Úr veltunum tveimur voru þrír fluttir á sjúkrahús. Feðgar voru í öðrum bílnum og þeir eru lemstraðir eftir veltuna. Kona sem var í hinum bílnum slasaðist hins vegar nokkuð og var flutt á Landsspítalann í Fossvogi. Hún var ekki í bílbelti og kastaðist út úr bifreið sinni í einni veltunni en bíllinn virðist hafa farið nokkrar veltur.
Bifreiðin sem konan ók var á sumardekkjum og því alveg stjórnlaus í þeim aðstæðum sem voru á veginum. Þá hefur konan verið að koma úr kleinubakstri því á vettvangi slyssins var hrærivél sem einnig kastaðist út úr bílnum og fjöldinn allur af kleinupokum og voru kleinur á víð og dreif um slysstaðinn.
Önnur útköll hjá sjúkraflutningsmönnum í dag voru vegna veikinda en íbúar Reykjanesbæjar hafa mikið orðið varir við sírenuhlhóð í bænum í dag vegna þessa.
Mikið annríki hefur verið hjá Starfsmönnum Brunavarna Suðurnesja undanfarna daga og voru útköll frá föstudegi til mánudags 25 og þar af tvö brunaútköll. Fjöldi brunaútkalla hefur verið undanfarna daga og í síðastliðinni viku eru þau orðin ellefu.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri BS, segir af gefnu tilefni sé ástæða til að hvetja fólk til að fara varlega í meðferð elds, en greinileg fjölgun útkalla hefur verið nú í aðdraganda jóla og aldrei er of oft brýnt fyrir fólki að fara varlega.
Þessi bifreið var á sumarhjólbörðum, að sögn lögreglumanna á vettvangi. Kona sem ók bifreiðinni var ekki í bílbelti og kastaðist út úr bílnum og það gerði farangur hennar einnig. Fjölmargir kleinupokar voru á víð og dreif um slysstaðinn og einnig hrærivél.
Konan kastaðist út úr bílnum og hafnaði þar sem rauða keilan er staðsett. Hún var með beinbrot og var flutt á Landsspítalann.
Feðgar voru saman í þessari bifreið. Bifreiðin fór einhverjar veltur en feðgarnir voru í beltum og hlutu aðeins skrámur í slysinu. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan og á efstu myndinni í þessari frétt er ekki langt á milli bílanna í metrum og aðeins liðu um þrjár mínútur á milli slysanna.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson