Tvö sjö hæða fjölbýlishús og verslunarhúsnæði ofan á gömlu saltgeymsluna
Fresta afgreiðslu deiliskipulags vegna Hafnargötu 81–85 í Reykjanesbæ. Vísað til stýrihóps um endurskoðun aðalskipulags.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur frestað afgreiðslu deiliskipulags vegna Hafnargötu 81–85 og er erindinu vísað til stýrihóps um endurskoðun aðalskipulags.
OS fasteignir ehf. lögðu fram tillögu að breytingu á deili- og aðalskipulagi samkvæmt upprætti JeES arkitekta ehf. dagsettu 16. júní 2021. Helstu breytingar voru að niðurrif saltgeymslunnar fellur niður, heimilaðar eru þrjár hæðir fyrir þjónustu- og verslunarhúsnæði ofan á saltgeymsluna, nýbygging tveggja sjö hæða fjölbýlishúsa, í stað þriggja fimm hæða, breytingu á götuheiti lóðar úr Hafnargötu 81, 83 og 85 í Hafnargata 81, 83 og Víkurbraut 19. Breyting á aðalskipulagi hefur ekki verið afgreidd.
Deiliskipulagstillagan var auglýst og tvær athugsemdir bárust. Í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs segir að tillagan sé ekki í samræmi við skilmála aðalskipulags. Gengið er á grænt svæði og atvinnustarfsemi er ekki heimil á íbúðasvæðum. Heimilt er að breyta aðalskipulagi og laga það að skilmálum deiliskipulags, segir í afgreiðslunni.
Svona gæti byggðin litið út eftir framkvæmdir.